Nanna Björnsdóttir hefur alltaf haft mikinn áhuga á hárgreiðslu en hún starfar sem hárgreiðslukona á Kompaníinu. Nanna hefur verið í faginu í 20 ár en hún byrjaði að læra á Jóa & félögum þegar hún var 17 ára gömul. Umhirða hárs getur gjarnan verið vandasöm og til að mynda ofnota margir sjampó, sem getur gert það að verkum að hárið og hársvörður verður þurr og erfitt er að meðhöndla hárið.
Sjálf þvær Nanna hár sitt einu sinni í viku og segir að það sé alls ekki nauðsynlegt að þvo það oftar. „Það þarf ekki að vera slæmt að þvo hárið með sjampói á hverjum degi þótt vissulega séu sumir með það viðkvæman hársvörð að þeir þola það ekki. Yfirleitt er hins vegar algjör óþarfi að þvo hárið á hverjum degi enda verður það ekki skítugt á einum degi, nema mögulega hjá fólki í þess háttar störfum,“ segir Nanna. Oftast er það þannig að fólk þvær á sér hárið of oft í viku en Nanna vill meina að nægjanlegt sé að þvo hárið með sjampói einu sinni til tvisvar sinnum í viku. „Samt sem áður er mjög gott að bleyta hárið hvern dag án þess að nota sjampó og í staðinn er tilvalið að setja hárnæringu í endana.“ Best er að fara eftir leiðbeiningunum á flöskunni þar sem mismunandi er hversu lengi hárnæringin á að vera í hárinu.
Hvaða ráð hefur þú fyrir þá sem vilja minnka notkun á sjampói? „Þá er best að byrja á því að trappa sig niður hægt og rólega. Þeir sem þvo á sér hárið með sjampói á hverjum degi geta byrjað á því að þvo hárið án sápu annan hvern dag. Í staðinn er hárið bleytt, hársvörðurinn er nuddaður vel og hárnæring er sett í endana. Það á alls ekki að setja hárnæringu í rótina því þá fitnar hárið fyrr. Dögunum þar sem hárið er þvegið með sápu er svo fækkað hægt og rólega, með hverri vikunni, þar til nægilegt er að þvo hárið bara einu sinni í viku með sápu. Hins vegar er sjálfsagt að bleyta hárið á hverjum degi en með tímanum á að vera nóg að þvo það einu sinni í viku með sápu. Til að gera þetta enn auðveldara þá er mjög gott að nota þurrsjampó sem er spreyjað í rótina á þurru hári því það tekur alla fitu úr hársverðinum. Kostirnir við að nota sjampó sjaldnar er að hárið verður mun meðfærilegra, það verður minna rafmagn í því og litlu hárin, sem eiga það til að standa upp úr kollinum, verða síður áberandi.
Aðspurð hvort Nanna þekki dæmi þess að fólk hafi algjörlega hætt að nota sjampó segist hún gera það: „Já, það eru dæmi um að fólk noti ekki sjampó og sumir hafa aldrei notað sjampó á ævinni en ástæðurnar geta verið margvíslegar. Svo eru margir sem láta einungis fagfólk þvo sér um hárið þegar mætt er í klippingu,“ segir Nanna að lokum.