„Ég reyndi að hafa gaman að þessu“

Pálmi Rafn Arinbjörnsson fékk tækifæri í kvöld.
Pálmi Rafn Arinbjörnsson fékk tækifæri í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Pálmi Rafn Arinbjörnsson sagði stressið hafa horfið fljótt þegar hann varði mark Íslandsmeistara Víkings í toppslagnum gegn Breiðabliki í efstu deild karla í knattspyrnu í kvöld. 

Liðin skildu jöfn 1:1 en Pálmi hélt markinu hreinu fyrstu 77 mínúturnar og átti fínan leik. Víkingur jafnaði í uppbótartíma og náði í stig.

„Það var óvænt fyrir mig að fá að spila og stórt tækifæri. Ingvar fékk högg í síðasta leik og síðustu dagana var óvissa um hvort hann gæti spilað eða þar til í gær. Ég fann fyrir fiðringi fyrir leikinn en stressið hvarf þegar leikurinn var byrjaður. En þetta var bara venjulegur fiðringur, engar öfgar enda hef ég spilað á stærri vettvangi. En þetta var vissulega stórleikur og ég reyndi að hafa gaman að þessu. Mér fannst ég standa mig vel,“ sgaði Pálmi þegar mbl.is tók hann tali á Kópavogsvelli í kvöld. 

„Þetta var virkilega erfiður leikur og ég er því ánægður með stigið. Við vorum með vindinn í andlitið til að byrja með en mér fannst okkur takast vel að verja vítateiginn. Stigið er gott í erfiðu umhverfi en áhorfendur voru geggjaðir.“

Skallaeinvígi í leik liðanna í kvöld.
Skallaeinvígi í leik liðanna í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jöfnunarmark Víkinga kom þegar nokkuð var liðið á uppbótartímann en Pálmi hafði ekki gefið upp alla von. 

„Ég hef alltaf trú á því að við getum skorað og við erum alltaf líklegir til þess. Sérstaklega þegar við erum undir því þá setjum við einhvern veginn meiri kraft í þetta. Ég hafði þess vegna trú á því að við myndum tryggja okkur sigur undir lok leiksins,“ sagði Pálmi Rafn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert