„Stigasöfnunin hefur verið fín“

Jason Daði Svanþórsson umkringdur Víkingum í kvöld. Þeim Jóni Guðni …
Jason Daði Svanþórsson umkringdur Víkingum í kvöld. Þeim Jóni Guðni Fjólusyni, Aroni Elís Þrándarsyni og Danijel Djuric. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jason Daði Svanþórsson segir lið Breiðabliks vera á réttri leið á Íslandsmótinu í knattspyrnu en liðið var nærri því að leggja Íslands- og bikarmeistarana í Víkingi að velli í Smáranum í kvöld. 

„Stigasöfnunin hefur verið fín. Fyrir utan bikarkeppnina höfum við bara tapað fyrir Val og Víkingi. Við vitum að við eigum aðeins inni hvað frammistöðuna varðar. En mér fannst frammistaðan góð í kvöld og var skref í rétta átt,“ sagði Jason Daði þegar mbl.is ræddi við hann á Kópavogsvellinum í kvöld. 

Jason Daði kom Blikum yfir á 77. mínútu en Víkingar jöfnuðu í uppbótartíma og úrslitin því 1:1.

„Niðurstaðan er svekkjandi. Við vorum með unnin leik en klúðruðum því. Þegar andstæðingurinn skorar svona seint þá er svekkelsið auðvitað meira en þetta eru bara tvö stig. En við munum mæta HK í næsta leik með sama hugarfari. Takist okkur að halda sama hugarfari í næstu leikjum þá er ég bara mjög bjartsýnn,“ segir Jason en Breiðablik er þremur stigum á eftir Víkingi í toppbaráttunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert