Varamaðurinn tryggði meisturunum stig

Aron Elís Þrándarson úr Víkingi og Alexander Helgason úr Breiðabliki …
Aron Elís Þrándarson úr Víkingi og Alexander Helgason úr Breiðabliki eigast við í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik og Víkingur R. skildu jöfn 1:1 í Bestu deild karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. 

Eftir markalausan fyrri hálfleik náði Breiðablik forystunni á 77. mínútu með marki frá Jasoni Daða Svanþórssyni af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf Viktors Karls Einarssonar frá hægri. 

Víkingar voru nokkuð á ágengir á lokakaflanum en gekk ekki sérlega vel að skapa hættuleg færi. Varamaðurinn Gísli Gottskálk Þórðarson kom til bjargar og jafnaði í uppbótartíma með föstu skoti frá vítateigslínunni. 

Um stórleik er að ræða því liðin eru í tveimur efstu sætunum. Víkingur er í toppsætinu með 22 stig og Breiðablik í öðru sæti með 19.

Pálmi Rafn fékk tækifæri

Breiðablik var töluvert meira með boltann í fyrri hálfleik en Víkingar hresstust í síðari hálfleik og voru þá mun hættulegri en þeir höfðu verið í fyrri hálfleik.

Á heildina litið var leikurinn taktískur og bar þess merki að mikið var undir. Menn tóku litla áhættu og fyrir vikið var leikurinn frekar lokaður lengst af. 

Fá marktækifæri voru í fyrri hálfleik. Liðin komust nokkrum sinnum í álitlega stöðu sem ekki tókst að vinna úr. Anton Ari Einarsson varði frá Pablo Punyed í besta færi Víkinga í fyrri hálfleik og markvörðurinn ungi Pálmi Rafn Arinbjörnsson varði virkilega vel lúmskt skot frá Aroni Bjarnasyni í besta færi Blika. Pálmi varði með fingurgómunum en Víkingur fékk þó markspyrnu ef einhver sem sá leikinn man ekki eftir atvikinu. 

Pálmi Rafn lék annan leik sinn í efstu deild en Ingvar Jónsson markvörður Víkinga fékk högg í síðasta leik. Pálmi komst mjög vel frá leiknum og gat lítið gert við marki Breiðabliks. 

Fyrsta mark Gísla

Blikarnir höfðu verið mun meira með boltann í fyrri hálfleik. Víkingar færðu sig meira upp á skaftið í síðari hálfleik. En Blikarnir tóku þrátt fyrir það forystuna á 77. mínútu eins og áður segir. Undirbúningurinn var góður hjá Viktori Karli sem átti góðan leik fyrir Blika. 

Á lokakaflanum reyndu Víkingar hvað þeir gátu og sendu boltann ítrekað inn á teiginn og í áttina að honum. Arnar hafði skipt öllum varamönnunum inn á. Sumir hverjir mjög þekktir eins og Matthías Vilhjálmsson en aðrir minna þekktir eins og hinn tvítugi Gísli Gottskálk sem jafnaði leikinn.

Vafalaust eftirminnilegt kvöld fyrir hann enda fyrsta markið í efstu deild og það er jöfnunarmark undir lokin í leik tveggja efstu liðanna. 

Breiðablik 1:1 Víkingur R. opna loka
90. mín. Víkingur R. fær hornspyrnu Frá vinstri. Ekkert varð úr henni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert