Ótrúlegur átta marka leikur í Vesturbæ

Tryggvi Hrafn Haraldsson skorar fyrsta mark Vals.
Tryggvi Hrafn Haraldsson skorar fyrsta mark Vals. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur hafði betur gegn KR, 5:3, í ótrúlegum leik í Bestu deild karla í fótbolta á Meistaravöllum í Vesturbænum í kvöld. 

Valsmenn eru því eftir þennan leik í 3. sæti með 21 stig eftir 10 leiki en KR er í 8. sæti með 11 stig eftir 9 leiki.

Leikurinn fór ansi vel af stað. Valsmenn áttu upphafsspyrnu leiksins en það voru heimamenn í KR sem skoruðu fyrsta mark leiksins eftir rúmlega 5 mínútna leik þegar Aron Sigurðarson átti þrumuskot fyrir utan teig og boltinn söng í netinu. 1:0 fyrir KR.

Heimamenn voru ekki hættir því rétt um mínútu síðar voru KR-ingar mættir aftur í sókn. Aron Sigurðarson var með boltann úti á vinstri kanti og gaf boltann fyrir mark Valsmanna. Þar var Benoný Breki Andrésson mættur og skallaði boltann í netið. Staðan 2:0 fyrir KR eftir tæplega 7 mínútur.

Þá kviknaði heldur betur í liði Valsmanna. Á 12. mínútu keyrðu Valsmenn upp völlinn. Jakob Franz Pálsson átti langa sendingu á Tryggva Hrafn Haraldsson sem kom sér í gott skotfæri utan teigs og skoraði af miklu öryggi. Staðan 2:1 fyrir KR.

Á 31. mínútu leiksins var komið að Patrick Pedersen. Jakob Franz Pálsson átti þá frábæra sendingu á fjærstöng KR og þar mætti Patrick Pedersen dauðafrír og skoraði af miklu öryggi og jafnaði leikinn fyrir Val, 2:2.

Valsmenn voru aldeilis ekki hættir því á 33. mínútu kom stórkostleg sending frá Frederik Schram yfir allan völlinn. Þar tók Tryggvi Hrafn við boltanum viðstöðulaust og skoraði undir Guy Smit í marki KR. Staðan orðin 3:2 fyrir Val.

Fjórum mínútum síðar eða á 37. mínútu juku Valsmenn forystuna þegar Jónatan Ingi Jónsson átti frábæra sendingu á Patrick Pedersen sem skallaði boltann af öryggi í mark KR og staðan orðin 4:2 fyrir Val.

KR-ingar gerðu harða atlögu strax í byrjun síðari hálfleiks og uppskáru tvær hornspyrnur á fyrstu mínútunum en Frederik Schram varði vel í síðari hornspyrnunni. Eftir það róaðist leikurinn talsvert og má segja að baráttan hafi átt sér stað á miðjum vellinum, fjarri hættusvæði beggja liða.

Á 59. mínútu fengu Valsmenn hornspyrnu. Boltinn barst inn í teiginn þar sem mikil barátta var við marklínu KR sem á endanum náði að hreinsa frá. Besta færi leiksins í síðari hálfleik til þessa.

Á 60. mínútu var Gísli Laxdal Unnarsson við það að komast einn inn fyrir vörn KR en Finnur Tómas Pálmason rak fótinn í hann og brýtur á honum. Sigurður Hjörtur dómari leiksins hafði ekkert annað úrræði en að gefa honum rautt spjald. KR-ingar léku því manni færri síðasta hálftímann.

Á 74. mínútu átti Birkir Már Sævarsson sendingu inn fyrir vörn KR. Þar var varamaðurinn Gísli Laxdal Unnarsson sem keyrði inn í teig KR-inga og afgreiddi boltann snyrtilega í markið. Staðan 5:2 fyrir Val.

Á 84. mínútu leiksins fékk Jónatan Ingi Jónsson fínt færi fyrir Val þegar hann skaut að marki KR innan teigs en Guy Smit varði vel.

Á 90. mínútu skoraði Kristján Flóki Finnbogason sárabótamark fyrir KR þegar Aron Sigurðarson átti langa sendingu inn í vítateiginn, varnarmaður skallaði aftur fyrir sig og Kristján Flóki náði að skalla boltann aftur fyrir sig og yfir Frederik í markinu, lokatölur 5:3.

Næstu leikir liðanna er 18. júní þegar Valur fær Víkinga í heimsókn en KR fer á Akranes og mætir ÍA.

KR 3:5 Valur opna loka
90. mín. Kristján Flóki Finnbogason (KR) skorar 3:5. Kristján Flóki fær boltann inn í teig og skallar hann aftur fyrir sig og skorar. Þetta breytir samt ekki niðurstöðu leiksins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert