Skemmtileg og sérstök tilfinning á Wembley

Þorvaldur Örlygsson var mættur á leikinn á Wembley.
Þorvaldur Örlygsson var mættur á leikinn á Wembley. Morgunblaðið/Óttar Geirsson

„Við erum staddir á Wembley, sem er Mekka fótboltans í heiminum, og á Íslandi tengjumst við mikið enska fótboltanum. Að ná í þessi úrslit er frábært," sagði Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, eftir sigurleikinn gegn Englendingum á þjóðarleikvangi þeirra í London í gærkvöld.

„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er vináttuleikur en við höfum stundum tapað svoleiðis leikjum stórt. Í kvöld unnum við góðan og sannfærandi sigur. Við áttum séns á einu til tveimur mörkum í viðbót. Hér voru 82 þúsund manns á vellinum og okkar menn sáu til þess að þá setti hljóða," sagði Þorvaldur þegar mbl.is ræddi við hann eftir leikinn.

Þorvaldur lék sjálfur á Englandi á sínum tíma, spilaði um 200 deildaleiki með Nottingham Forest, Stoke og Oldham og skoraði sjö mörk í 41 landsleik fyrir Íslands hönd. Hann sagði að það hefði verið frábær tilfinning að sitja í stúkunni á Wembley og horfa á íslenska liðið vinna góðan sigur.

„Hvort sem það er sem fyrrverandi leikmaður, áhorfandi eða hvað sem er þá er alltaf gaman að upplifa íslenskan sigur, en sem formaður er það mjög skemmtileg og sérstök tilfinning. Að sitja hérna í heiðursstúkunni og horfa á frábæra frammistöðu hjá drengjunum, vel skipulagðan leik, var einstaklega gaman. Þeir héldu sinni uppstillingu vel og þetta var mjög vel upp settur leikur. Það er gaman að horfa á þá og sjá hvernig þeir útfærðu þetta tæknilega," sagði Þorvaldur.

Íslenskir áhorfendur á Wembley voru vel með á nótunum og …
Íslenskir áhorfendur á Wembley voru vel með á nótunum og skemmtu sér konunglega á meðan 81 þúsund Englendingar voru frekar súrir með sína menn. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þó þetta hafi verið vináttuleikur þá sjáum við hversu hæfileikaríka drengi við eigum og framtíðin er björt að mörgu leyti. En þetta snýst alltaf um að búa til gott lið og góða liðsheild og í kvöld sáum við menn vinna fyrir því að uppskera þennan sigur. Hver einasti leikmaður skildi hlutverk sitt og það var virkilega gaman að horfa á það," sagði formaðurinn.

Önnur stórþjóð á mánudagskvöldið

Nú liggur leið hans og landsliðsins til Rotterdam þar sem Ísland mætir ekki síðri andstæðingum, Hollendingum á mánudagskvöldið.

„Það er önnur stórþjóð í fótboltanum með mikla sögu á bak við sig. Það verður gaman að sjá hvernig leikmennirnir okkar höndla pressuna þar og svara ákveðnum spurningum. Auðvitað eru þetta vináttuleikir en við sáum í kvöld hvernig menn takast á og hvernig liðið vinnur saman.

Mér fannst liðið gera það vel og þessi frammistaða minnti á Ísraelsleikinn í mars að mörgu leyti, hvað varðar skipulag og annað. Allir sem komu inn á skiluðu sínu og liðsheildin er alltaf að verða betri og betri," sagði Þorvaldur Örlygsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert