Þetta er eitthvað sem þig dreymir um

Sverrir Ingi Ingason ánægður í leikslok á Wembley.
Sverrir Ingi Ingason ánægður í leikslok á Wembley. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Að koma á Wembley og vinna, þetta er eitthvað sem þig dreymir um. Þetta var ótrúlega stórt kvöld fyrir okkur," sagði Sverrir Ingi Ingason, varnarmaðurinn reyndi í íslenska landsliðinu í knattspyrnu eftir sigurinn glæsilega gegn Englendingum á Wembley í gærkvöld, 1:0.

Íslenska liðið spilaði nánast gallalausan varnarleik með Sverri Inga og Daníel Leó Grétarsson í lykilhlutverkum og Sverrir sagði við mbl.is að leikskipulagið hefði gengið fullkomlega upp.

„Jú, þetta þróaðist eins og við lögðum upp með. Við vissum að þeir yrðu meira með boltann og við yrðum að verjast vel í okkar uppstillingu. Mér fannst það takast mjög vel í kvöld og við gáfum ekki mörg færi á okkur. Kannski aðeins í fyrri hálfleik, þegar þeir fengu tækifæri eftir tvær fyrirgjafir.

Fyrir utan það var sérstaklega seinni hálfleikurinn vel útfærður af okkar hálfu. Hákon þurfti ekki að verja mörg skot en hann gerði geysilega vel í að koma út í fyrirgjafirnar.

Okkur leið vel með þetta og svo fengum við tvö bestu færin til þess að skora annað mark. Ég hefði sjálfur átt að skora," sagði Sverrir sem skallaði af stuttu færi eftir hornspyrnu í síðari hálfleiknum en Aaron Ramsdale náði að verja.

„Boltinn kom úr horninu á fjærstöngina, ég hljóp á hann og var í mjög þröngu færi. Ég reyndi að skalla niður í jörðina, þurfti að beygja mig fram, en markmaðurinn náði einhvern veginn að klemma boltann á milli fótanna og verja.

Sverrir Ingi Ingason í baráttu við Ivan Toney, framherja Englands.
Sverrir Ingi Ingason í baráttu við Ivan Toney, framherja Englands. Ljósmynd/Alex Nicodim

Svo var það færið rétt á undan þegar Hákon Arnar renndi á Jón Dag sem rann á einhvern ótrúlegan hátt og náði ekki skoti.

En þetta var góð frammistaða heilt yfir og hún sýnir að við erum á réttri leið með þetta lið. Þessi gefur strákunum sem eru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu mikla trú á að þetta sé hægt.

Ég hef sjálfur farið í gegnum allan pakkann og upplifað ótrúlega sigra með þessu landsliði og svo lengi sem við sinnum okkar hlutverki inni á vellinum og erum skynsamir getum við strítt öllum liðum eins og við gerðum í kvöld," sagði Sverrir.

Öðruvísi týpur í liðinu í dag

Þið sýnduð líka í seinni hálfleiknum að þið getið vel haldið boltanum og stjórnað leiknum á móti svona sterkum mótherjum.

„Algjörlega, við þurfum á ákveðnum tímapunktum í leikjunum að geta fengið smá hvíld með því að halda boltanum. Við sköpuðum í þokkabót nokkur færi, fengum hornspyrnur, löng innköst og fleiri uppstillt atriði sem gefa okkur alltaf fleiri marktækifæri.

Sverrir Ingi Ingason og Hákon Rafn Valdimarsson markvörður í baráttu …
Sverrir Ingi Ingason og Hákon Rafn Valdimarsson markvörður í baráttu í íslenska vítateignum á lokamínútum leiksins. Ljósmynd/Alex Nicodim

Í þessu liði í dag erum við með mikið af flinkum fótboltamönnum, sérstaklega fram á við, kannski öðruvísi týpur en voru í liðinu áður fyrr þegar við vorum frekar með stóra og stæðilega menn.

Þá þurfum við líka að geta nýtt hæfileikana og gæðin sem þessi leikmenn búa yfir og koma þeim í góðar stöður í sóknarleiknum með því að halda boltanum. Mér fannst það takast nokkuð vel í kvöld og þetta var virkilega góður sigur.

Þurfum að treysta á hópinn

Íslenska liðið fer í dag til Rotterdam og mætir þar öðru firnasterku liði, Hollendingum, í vináttulandsleik á mánudagskvöldið.

Já, nú eru innan við þrír sólarhringar á milli leikja þannig að við þurfum að tjasla okkur saman og reyna að nýta hópinn. Það verða örugglega einhverjar breytingar á liðinu. Menn eru á mismunandi stað, sumir eru búnir með sitt tímabil og aðrir á miðju tímabili, og við þurfum að nýta þessa leiki til að koma eins mörgum leikmönnum inn í hlutina.

Það eiga eftir að koma upp leikbönn, meiðsli og annað svo við verðum að geta treyst á hópinn í framhaldinu," sagði Sverrir Ingi Ingason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert