Aðeins of mikið ping pong í dag

Blikar að fagna marki í dag.
Blikar að fagna marki í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, var afar sáttur þegar flautað var til leiksloka í leik Breiðabliks og KA í Bestu deild karla á Kópavogsvelli í kvöld en Breiðablik sigraði leikinn 2:1. Aðeins munar einu stigi á toppliði Víkings og liði Breiðabliks sem er í öðru sæti deildarinnar eftir þessi úrslit.

„Þetta er bara léttir að vinna þennan leik. Eftir fyrstu 15 mínútur leiksins þegar við byrjuðum af rosalegum krafti þá gáfum við ansi mikið eftir. Við áttum bara ekki nógu góðan leik. En það er líka styrkleiki að klára svoleiðis leiki og fá þrjú stig. Það er bara þannig að mótið hefur spilast þannig að við erum mjög oft að spila á eftir hinum liðunum þannig að við erum alltaf að elta Þannig að það er pressa á okkur að það aukist ekki bilið og það er bara karakter að halda í við toppliðið. Það er bara fyrst og fremst léttir að vinna þennan leik. Þetta var ekki okkar besti leikur,” sagði Halldór stuttu eftir leikinn við blaðamann mbl.is á Kópavogsvelli.

En hvað gerðist eftir þessar fínu fyrstu 15 mínútur hjá ykkur?
„Já, við byrjuðum þetta svakalega vel þannig að ég get ekki kennt því um að það hafi verið langt síðan að við spiluðum síðast. Menn voru bara í góðum gír. Þetta er bara stundum svona þegar þú byrjar með svona miklum krafti. Pressan okkar var góð í upphafi leiksins, við vorum fljótir að vinna boltann aftur þegar við töpuðum honum. Þetta var einfaldur og skilvirkur sóknarleikur hjá okkur. Fínar stöður og góðar fyrirgjafir. Við vorum að fá færi. Náðum ekki að nýta þau. Þeir bjarga á línu til dæmi. Maður verður alltaf smeykur að maður nái ekki að halda þessu mómenti allan leikinn. Það er aldrei þannig.Við bara gáfum of mikið eftir og komum þeim of mikið inn í leikinn,” bætti Halldór við.

En það er rosalega gott að klára leiki eins og þessa. Liðið ekki að spila sinn besta leik en ná samt í stigin þrjú. Er það ekki?
„Jú, það er helvíti gott. Þegar við setjum leikinn í 2:1 vorum við búnir að herja á þá nokkuð harkalega í nokkurn tíma. Það er alveg í lagi að grænda út leiki stundum en þú vilt ekki að mótherjarnir séu að fá of mörg færi. Við þurfum til dæmis að skoða það hvernig það gerðist að þegar aðeins 10 sekúndur eru eftir af leiknum þá eru þeir allt í einu komnir einir í gegn. Það er eitthvað sem við verðum að skoða. Þegar lið ætla að loka leikjum þurfa liðin að gera það þannig að þau fái ekki færi á sig og við höfum gert í nokkrum leikjum en það var aðeins of mikið ping pong í dag. Of lítið skjól sem við höfðum en við kláruðum þetta,” sagði Halldór einnig.

Ertu sáttur með stöðu liðsins eftir 11 umferðir? Einu stigi á eftir toppliði Víkings?
„Já, 25 stig í 11 umferðum er prýðilegur árangur. Við getum alveg verið sáttir með það. Hvort að það sé eitt stig í Víkinga eða ekki þá viljum við bara vera þarna uppi þangað til að það kemur að úrslitakeppni. Við viljum vera í þessari baráttu allt til enda. Það er klárt mál. Núna fara auðvitað öll efstu liðin í deildinni í Evrópukeppnina í næsta mánuði. Það verður rosalega þétt program. Þetta getur orðið ansi skemmtilegur júlí mánuður og þá fara línur kannski að skýrast enn frekar. Við erum allavega ánægðir með stöðuna,” sagði Halldór Árnason að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert