10. umferð: FH-ingur í 400, áfangamark Gylfa og Andri áttundi

Dusan Brkovic, til hægri, lék sinn 400. deildaleik á ferlinum …
Dusan Brkovic, til hægri, lék sinn 400. deildaleik á ferlinum á þriðjudagskvöldið. mbl.is/Eyþór Árnason

FH-ingur náði stórum leikjaáfanga í 10. umferð Bestu deildar karla í fótbolta og Valur og Víkingur náðu bæði áföngum í mörgum og stigum í stórleik liðanna á Hlíðarenda.

Serbneski miðvörðurinn Dusan Brkovic lék sinn 400. deildaleik á ferlinum þegar lið hans, FH, mátti sætta sig við ósigur gegn Stjörnunni í Garðabæ, 4:2. Dusan lék þar sinn 71. leik í efstu deild hér á landi, sjötta leikinn með FH og hafði áður spilað 65 leiki með KA í deildinni.

Áður en Dusan kom til Íslands fyrir tímabilið 2021 hafði hann leikið samtals 329 deildaleiki í Serbíu, Ísrael, Ungverjalandi og Lettlandi. Þar af 134 leiki í Serbíu, 157 í Ungverjalandi, 30 í Ísrael og 8 í Lettlandi.

Andri Rafn Yeoman er kominn í 8. sætið yfir þá …
Andri Rafn Yeoman er kominn í 8. sætið yfir þá leikjahæstu frá upphafi. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Andri náði Hauki Páli

Andri Rafn Yeoman úr Breiðabliki jafnaði í gærkvöld við Hauk Pál Sigurðsson, sem lengst lék með Val, í áttunda sæti yfir leikjahæstu leikmenn sögunnar í efstu deild karla. Þeir deila nú 8. sætinu með 283 leiki hvor en Andri hefur leikið alla sína leiki fyrir Breiðablik og Haukur er leikjahæstur í sögu Vals með 248 leiki fyrir félagið.

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði áfangamark í sögu Vals þegar hann jafnaði í annað sinn úr vítaspyrnu gegn Víkingi í uppbótartímanum á Hlíðarenda í fyrrakvöld, 2:2. Þetta var mark númer 2.200 hjá Val í efstu deild og aðeins KR-ingar hafa skorað fleiri mörk í deildinni, 2.253 talsins. Skagamenn eru þriðju með 1.852 mörk.

Gylfi Þór Sigurðsson í leik Vals og Víkings en þar …
Gylfi Þór Sigurðsson í leik Vals og Víkings en þar skoraði hann 2.200. mark Vals í deildinni. mbl.is/Árni Sæberg

Víkingar náðu líka áfanga á Hlíðarenda en leikurinn gegn Val var 800. leikur félagsins í efstu deild.

Þorsteinn Aron Antonsson skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild þegar hann tryggði HK sigur á Fram, 2:1, með hjólhestaspyrnu.

Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra, skoraði sitt fyrsta mark í deildinni þegar hann kom liðinu yfir í ósigrinum gegn Fylki í Árbænum, 3:2.

Marko Vardic skoraði líka sitt fyrsta mark í deildinni þegar hann gerði síðara mark Skagamanna í sigrinum á KR, 2:1.

Úrslit­in í 10. um­ferð:

Fylk­ir - Vestri 3:2
Fram - HK 1:2
Stjarn­an - FH 4:2
ÍA - KR 2:1
Val­ur - Vík­ing­ur R. 2:2
Breiðablik - KA 2:1

Marka­hæst­ir í deild­inni:
8 Pat­rick Peder­sen, Val
8 Vikt­or Jóns­son, ÍA
5 Beno­ný Breki Andrés­son, KR
5 Danij­el Dej­an Djuric, Vík­ingi R.
5 Emil Atla­son, Stjörn­unni
5 Gylfi Þór Sig­urðsson, Val
5 Ja­son Daði Svanþórs­son, Breiðabliki
4 Ari Sig­urpáls­son, Vík­ingi R.
4 Aron Elís Þránd­ar­son, Vík­ingi R.
4 Atli Sig­ur­jóns­son, KR
4 Björn Daníel Sverrisson, FH
4 Guðmund­ur Magnús­son, Fram
4 Helgi Guðjóns­son, Fram
4 Jónatan Ingi Jóns­son, Val
4 Sig­urður Bjart­ur Halls­son, FH
4 Tryggvi Hrafn Har­alds­son, Val
4 Úlfur Ágúst Björns­son, FH
4 Vikt­or Karl Ein­ars­son, Breiðabliki

Næstu leik­ir:
22.6. Vestri - Valur
22.6. HK - Stjarnan
22.6. Víkingur R. - KR
23.6. KA - Fram
23.6. Breiðablik - ÍA
23.6. FH - Fylkir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert