Fylkir hafnar ásökunum um kynþáttaníð

Hart barist í leik Fylkis og Vestra á þriðjudagskvöld.
Hart barist í leik Fylkis og Vestra á þriðjudagskvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn knattspyrnudeildar Fylkis hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ásakana Davíðs Smára Lamude, þjálfara Vestra, um að leikmenn Fylkis hafi beitt leikmann sinn kynþáttaníði í leik liðanna í Bestu deild karla á þriðjudagskvöld.

„Eftir leik Fylkis og Vestra 18. júní sl komu fram mjög alvarlegar ásakanir af hálfu þjálfara Vestra um meinta kynþáttafordóma af hálfu leikmanna Fylkis. Forráðamenn Vestra hafa fyrr í dag komið erindi um meint tilvik í umræddum leik á framfæri við KSÍ.

Á sama tíma og Fylkir hafnar þessum ásökunum þá er mikilvægt að halda umræðu um jafnrétti og fordóma á lofti og við ítrekum að það er ekkert svigrúm fyrir fordóma eða ójafnrétti af neinu tagi í þjóðfélaginu,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Yfirlýsingin í heild sinni:

Vegna leiks Fylkis og Vestra

Í jafnréttisstefnu íþróttafélagsins Fylkis kemur m.a. eftirfarandi skýrt fram:

“Íþróttafélagið stuðlar að jöfnum tækifærum sinna félagsmanna og mismunar ekki vegna kynferðis, uppruna, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða, skoðana, litarháttar eða annarrar stöðu. Íþróttafélagið leggur áherslu á gagnkvæma virðingu í öllu starfi.”

Knattspyrnudeild Fylkis leggur áherslu á að allt starf á vegum deildarinnar samræmist ofangreindri stefnu.

Eftir leik Fylkis og Vestra 18. júní sl komu fram mjög alvarlegar ásakanir af hálfu þjálfara Vestra um meinta kynþáttafordóma af hálfu leikmanna Fylkis. Forráðamenn Vestra hafa fyrr í dag komið erindi um meint tilvik í umræddum leik á framfæri við KSÍ.

Á sama tíma og Fylkir hafnar þessum ásökunum þá er mikilvægt að halda umræðu um jafnrétti og fordóma á lofti og við ítrekum að það er ekkert svigrúm fyrir fordóma eða ójafnrétti af neinu tagi í þjóðfélaginu. Íþróttafélagið Fylkir leggur sitt af mörkum á hverjum degi í þeirri baráttu og vísum við í jafnréttisstefnu félagsins því til stuðnings en jafnréttisstefnan er aðgengileg á heimasíðu Fylkis.

Knattspyrnudeild Fylkis heitir fullu og opinskáu samstarfi við KSÍ vegna þessa máls og mun ekki tjá sig frekar um það í fjölmiðlum.

Stjórn Knattspyrnudeildar Fylkis,

20. júní 2024

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert