Sannfærandi sigur ÍBV í Mosfellsbæ

Eyjamenn fagna eftir að Arnar Breki Gunnarsson kom þeim yfir …
Eyjamenn fagna eftir að Arnar Breki Gunnarsson kom þeim yfir í fyrri hálfleliknum í kvöld. mbl.is/Eggert

ÍBV vann í kvöld góðan útisigur á Aftureldingu í 1. deild karla í knattspyrnu í Mosfellsbænum, 3:0.

Eyjamenn fara þar með upp fyrir Aftureldingu og í þriðja sæti deildarinnar með 13 stig en Afturelding er með 11 stig í fjórða sætinu og gæti misst það til Keflavíkur síðar í kvöld.

Arnar Breki Gunnarsson kom ÍBV yfir á 37. mínútu eftir  sendingu frá Oliver Heiðarssyni og Eyjamenn voru því yfir í hálfleik, 1:0. Oliver slapp inn fyrir vörn Aftureldingar hægra megin og sendi síðan á Arnar sem skoraði í tómt markið.

Elmar Kári Cogic úr Aftureldingu og Alex Freyr Hilmarsson fyrirliði …
Elmar Kári Cogic úr Aftureldingu og Alex Freyr Hilmarsson fyrirliði ÍBV í baráttu í Mosfellsbænum í kvöld. mbl.is/Eggert

Strax í byrjun síðari hálfleiks varð staða Eyjamanna enn vænlegri þegar Nökkvi Már Nökkvason skoraði eftir hornspyrnu.  Markvörður Aftureldingar missti boltann frá sér og Nökkvi skoraði af stuttu færi og ÍBV var komið í 2:0.

Hermann Þór Ragnarsson kom inn á sem varamaður upp úr miðjum síðari hálfleik og var aðeins fimm mínútur að skora þriðja markið, 3:0. Annar leikurinn í röð sem Hornfirðingurinn gerir þetta en hann er nýkominn heim úr námi í Bandaríkjunum. Oliver átti þar sína aðra stoðsendingu í leiknum, gaf á Hermann sem skoraði einn gegn markverði.

Eyjamenn hafa heldur betur snúið blaðinu við eftir óvænt tap gegn Dalvík/Reyni í fyrstu umferðinni. Þeir gerðu síðan fjögur jafntefli í næstu fimm leikjum en hafa nú unnið tvo góða útisigra í röð gegn Gróttu og Aftureldingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert