„Við spilum frábæran fótbolta“

Shaina Ashouri og Selma Dögg Björgvinsdóttir fagna eftir að Selma …
Shaina Ashouri og Selma Dögg Björgvinsdóttir fagna eftir að Selma kom Víkingi í 2:0. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Stúkan hjálpaði mikið, hún hætti aldrei og við hættum ekki heldur,“ sagði John Andrews, þjálfari Víkings eftir 2:1 sigur liðsins á Breiðablik í Bestu deild kvenna í fótbolta í dag.

„Ég er mjög stoltur af öllum hópnum, ekki bara leikmönnum heldur öllum. Við erum líka með frábæran formann og svo spilum við bara frábæran fótbolta og það kom ekki á óvart. Umgjörðin er frábær og ég er svo stoltur af öllum þessum leikmannahóp. Leyndarmálið er góður hópur,“ sagði John í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Víkingur var með yfirhöndina í fyrri hálfleik en í seinni fór liðið aðeins neðar á völlinn og Blikar komust betur inn í leikinn.

„Ef þú spilar á móti frábæru liði eins og Blikum þá ferðu stundum neðar. Í hálfleik þá töluðum við það að Blikar væru að koma inn í seinni undir og verða líklegast meira með boltann en við ætlum að spila með hjartanu og grafa djúpt.“

Linda Líf Boama kom inn á af bekknum og lagði upp annað mark Víkings og hún og fleiri varamenn Víkings komu vel inn í leikinn.

Hafdís Bára Höskuldsdóttir og John Henry Andrews ræða málin á …
Hafdís Bára Höskuldsdóttir og John Henry Andrews ræða málin á Víkingsvellinum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ef ég væri varnarmaður á Íslandi og sæi að Linda væri að koma inn á af bekknum þá væri ég stressaður. Hún er svo sterk og brosir svo mikið og elskar að vinna fyrir liðið. Hún er til fyrirmyndar fyrir aðra leikmenn, hún var meidd og datt út í tvö ár en kemur til baka og er svo grimm og ég er svo stoltur af henni og samgleðst henni.“

Víkingur er sem stendur í efri hlutanum en John sagði það ekki vera markmið liðsins að enda í honum.

„Við erum ekki með markmið. Í fyrra vorum við með markmið að komast upp í Bestu deild og vonandi spila vel í bikar. Í ár erum við bara að taka einn leik í einu sem er okkar plan, þetta er ekki bara klisja heldur okkar plan.

Víkingar mættu Breiðablik bara einu sinni á síðasta tímabili enda voru liðin ekki saman í deild, Víkingur var í 1. deild. Þrátt fyrir það vann Víkingur gegn Breiðablik í bikarúrslitaleiknum 3:1.

 „Við erum búnar með það, við skildum það eftir á síðasta ári, erum með medalíurnar í skápnum og það tilheyrir sögunni, núna erum við að skapa nýjar minningar,“ sagði John.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert