Skil ekki af hverju það var ekki bara látið vaða

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, lengst til vinstri, í leiknum í kvöld.
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, lengst til vinstri, í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

„Mér fannst þetta full stressandi í lokin, hefði viljað hafa þetta aðeins afslappaðra en spennandi og ég er ánægð með vinnuframlagið hjá mínum konum,“ sagði Álfhildur Rósa Kjartansdóttir fyrirliði Þróttar, sem vann Stjörnuna 1:0 þegar liðin mættust í Laugardalnum í kvöld í efstu deild kvenna í fótbolta.

„Ég veit ekki af hverju við vildum ekki láta vaða á markið þegar við vorum komnar í góða stöðu og þá farið senda stuttar sendingar inní teignum þegar við áttum bara að skjóta meira.  Það vantaði aðeins meira græðgi. Mér fannst spilamennskan heilt yfir mjög góð hjá okkur, það var helst þegar við vorum komnar inní að láta vaða á markið.  Þegar leið á leikinn varð mikið stress en við vörðumst vel og mér fannst við halda Stjörnunni í skefjum sem fékk ekki mikið af færum því við vörðumst vel.“

Þróttur var fyrir leikinn í neðsta sæti deildarinnar en með sigrinum fór liðið upp um tvö sæti, í það áttunda en fyrirliðinn sagði það stýrði engu.  „Við upplifum okkur ekki sem botnlið – ef frammistaðan væri léleg en hún hefur ekki verið léleg í mörgum leikjum og við vissum að við kæmumst í gang, héldum áfram trúna og gefast ekki upp.  Við sjáum það einmitt gerast núna.“

Álfhildur Rósa fékk fyrir leik blómvönd frá Þrótti fyrir að leika 200 leiki með félaginu. „Mér fannst þessi leikur ekkert öðruvísi en aðrir.  Samt var ég stolt yfir að spila svona mikið fyrir félagið, gæti samt verið að ég hafi verið með smá aukakraft í dag og þetta varð tvöföld ánægja hjá mér í dag – vinna leikinn og spila minn tvö hundraðasta leik“, bætti fyrirliðinn við og var ánægð að sjá Þórdísi Nönnu Ágústsdóttur koma inná en hún er 14 ára og spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild.  „Mér fannst frábært að fá Þórdísi að koma inná og held að allir sjái að það er björt framtíð hjá Þrótti því hún stóð sig ótrúlega vel í sínum fyrsta leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert