Valur jafnaði Breiðablik að stigum

Amanda Andradóttir í þann mund að koma Val yfir.
Amanda Andradóttir í þann mund að koma Val yfir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmeistarar Vals unnu sannfærandi sigur á FH, 3:1, þegar liðin áttust við í 9. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld.

Valur jafnaði þar með topplið Breiðabliks að stigum. Bæði eru þau nú með 24 stig en Blikar halda toppsætinu með ögn betri markatölu, þar sem munar aðeins einu marki.

FH er áfram í fjórða sæti með 13 stig.

Valur byrjaði af krafti og fékk dauðafæri þegar aðeins ein og hálf mínúta var liðin af leiknum.

Amanda Andradóttir átti þá frábæra fyrirgjöf frá hægri yfir á Katie Cousins sem tók viðstöðulaust skot af markteig vinstra megin en skaut framhjá.

Ekki leið hins vegar á löngu þar til Valur náði forystunni. Cousins fann Amöndu með laglegri sendingu á fimmtu mínútu, hún tók við boltanum vinstra megin í vítateignum og þrumaði honum svo upp í nærhornið, 1:0.

Rautt spjald?

Á áttundu mínútu dró til tíðinda þegar Fanndís Friðriksdóttir var að sleppa ein í gegn, Halla Helgadóttir fleygði sér í rennitæklingu og tók Fanndísi niður en komst að vísu fyrst í boltann.

Aukaspyrna var hins vegar dæmd og samkvæmt reglum hefði Jóhann Ingi Jónsson dómari að vísa Höllu af velli með rautt spjald úr því að hann ákvað að dæma aukaspyrnu en gaf henni þess í stað gult spjald.

Á 21. mínútu sendi Cousins Jasmín Erlu Ingadóttur í gegn, hún tók skotið en Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir komst fyrir það, boltinn barst aftur til Jasmínar Erlu sem var nánast fyrir opnu marki en skaut aftur beint í Andreu Rán.

FH-ingar hreinsuðu í hornspyrnu. Amanda tók hana frá hægri, fann Önnu Björk Kristjánsdóttur á fjærstönginni, hún náði fínum skalla en hann fór rétt framhjá markinu.

Eftir hálftíma leik átti Camryn Hartman góðan sprett upp vinstri kantinn, kom boltanum áfram til Fanndísar, hún gaf fyrir á Ísabellu Söru Tryggvadóttur sem tók viðstöðulaust skot hægra megin í vítateignum en það fór hátt yfir markið.

Skömmu fyrir leikhlé ógnaði Valur tvívegis vinstra megin í vítateignum. Fyrst tók Hartman fast skot í nærhornið sem Aldís Guðlaugsdóttir í marki FH varði nokkuð þægilega.

Fanndís fékk svo enn betra færi eftir sendingu frá Cousins, reyndi einnig skot í nærhornið en Aldís varði vel til hliðar áður en Jónína Linnet hreinsaði frá.

Síðasta orðið í fyrri hálfleik átti FH þegar Ída Marín Hermannsdóttir átti fínt skot úr D-boganum sem fór af Cousins og rétt yfir markið.

Ekkert kom út úr hornspyrnu FH í kjölfarið frekar en úr öðrum slíkum fyrr í hálfleiknum og staðan í leikhléi var því 1:0 fyrir Val.

Sjöunda mark Amöndu

FH hóf síðari hálfleikinn prýðilega þar sem bæði Elísa Lana Sigurjónsdóttir og Snædís María Jörundsdóttir reyndu skot en í bæði skiptin var Fanney Inga vel á verði í marki Vals.

Eftir tæplega klukkutíma leik fékk Valur vítaspyrnu. Jasmín Erla sendi þá fyrirliðann Berglindi Rós Ágústsdóttur eina í gegn, hún reyndi að fara framhjá Aldísi sem felldi Berglindi Rós og því ekkert annað í stöðunni en að dæma vítaspyrnu.

Amanda steig á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi þó Aldís hafi farið í rétt horn, spyrnan var einfaldlega of góð fyrir hana að eiga möguleika á að verja.

Amanda skoraði þar með sjöunda mark sitt í sjöunda deildarleiknum á tímabilinu.

Stuttu síðar átti Thelma Karen Pálmadóttir í liði FH góðan sprett, hún fór sjálf með boltann inn í vítateig, tók fast skot en beint á Fanneyju Ingu sem varði og greip boltann í annarri tilraun.

Jasmín Erla komst á blað

Tíu mínútum síðar, á 70. mínútu, kom þriðja markið hjá Val.

Fanndís gerði þá afar vel í að vinna boltann af Jónínu Linnet á vinstri kantinum, Fanndís gaf fyrir á varamanninn Ragnheiði Þórunni Jónsdóttur sem féll við hægra megin í vítateignum en náði að pota í boltann er hún sat á vellinum, kom honum á Jasmín Erlu sem kom aðvífandi í miðjum teignum og lagði boltann viðstöðulaust niður í bláhornið hægra megin.

Var þetta fimmta mark Jasmínar Erlu í sjöunda deildarleiknum á tímabilinu.

Tveimur mínútum eftir markið var Arna Eiríksdóttir, fyrirliði FH, nálægt því að minnka muninn gegn uppeldisfélagi sínu.

Andrea Rán tók þá hnitmiðaða aukaspyrnu sem Arna skallaði utarlega úr teignum, skallinn var fastur og boltinn stefndi niður í bláhornið vinstra megin en Fanney Inga teygði sig í boltann og varði glæsilega aftur fyrir.

Amanda virtist staðráðin í að ná þrennunni og átti tvö skot með stuttu millibili þegar um tíu mínútur lifðu leiks. Annað þeirra fór í hliðarnetið og Aldís varði hitt í hornspyrnu.

Á milli tilrauna Amöndu komst Berglind Rós nálægt því að skora fjórða mark Vals en skalli hennar af stuttu færi eftir fyrirgjöf varamannsins Þórdísar Hrannar Sigfúsdóttur af hægri katninum.

Stórglæsilegt sárabótamark

Sex mínútum fyrir leikslok slapp varamaðurinn Nadía Atladóttir ein í gegn eftir stungusendingu Cousins, tók skotið vinstra megin úr markteignum en Aldís varði afar vel með fótunum.

Í uppbótartíma komst varamaðurinn Selma Sól Sigurjónsdóttir nálægt því að minnka muninn fyrir FH þegar Jónína sendi hana í gegn hægra megin í vítateignum, Selma Sól tók skotið en Fanney Inga varði vel með fótunum.

Á þriðju mínútu uppbótartíma skoraði Ída Marín sárabótamark fyrir FH og var það stórglæsilegt. Hún fékk boltann fyrir utan vítateig, tók viðstöðulaust skot sem söng uppi í samskeytunum, fullkomlega óverjandi fyrir Fanneyju Ingu sem hafði fyrir þetta lokað markinu.

Við það var leikurinn flautaður af og tveggja marka sigur Vals niðurstaðan.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 3:1 FH opna loka
90. mín. Selma Sól Sigurjónsdóttir (FH) á skot sem er varið +1 Færi! Jónína sendir Selmu Sól í gegn hægra megin í teignum, hún tekur skotið en Fanney Inga ver laglega með fótunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert