Atli tryggði HK sigur með marki frá miðju

Arnþór Ari Atlason skoraði glæsilegt jöfnunarmark fyrir HK í Kórnum …
Arnþór Ari Atlason skoraði glæsilegt jöfnunarmark fyrir HK í Kórnum og á hér í höggi við Andra Adolphsson úr Stjörnunni. mbl.is/Óttar Geirsson

Atli Hrafn Andrason tryggði HK ótrúlegan sigur á Stjörnunni, 4:3, með marki frá miðju í uppbótartíma í í elleftu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í Kórnum í dag.

Stjarnan hafði jafnað metin í 3:3 með tveimur mörkum undir lok leiksins og virtist hafa tryggt sér í það minnsta stig eftir að hafa lent 3:1 undir í byrjun síðari hálfleiks.

HK er með þessum sigri komið upp fyrir KR og í 8. sæti deildarinnar með 13 stig en Stjarnan er áfram í fimmta sætinu með sextán stig.

Stjörnumenn byrjuðu leikinn frábærlega því eftir 35 sekúndur voru þeir komnir yfir, 1:0. Helgi Fróði Ingason átti glæsilega sendingu í gegnum vörn HK og Emil Atlason slapp einn gegn markverði og laumaði boltanum framhjá honum.

Garðbæingar voru með ágæt tök á leiknum og fengu þrjú færi á þremur mínútum til að bæta við marki. Emil átti tvö þeirra en Helgi Fróði það besta þegar Arnar Freyr Ólafsson varði naumlega frá honum.

En í staðinn jafnaði HK strax í kjölfarið, á 27. mínútu og það var stórglæsilegt mark. Upp úr hornspyrnu frá George Nunn frá hægri skallaði Kristján Snær Frostason boltann inn í vítateiginn hægra megin, Arnþór Ari Atlason tók hann á kassann, sneri sér og afgreiddi hann á lofti í hornið fjær, þversláin inn, og staðan 1:1.

Emil fékk sannkallað dauðafæri á 38. mínútu en skaut framhjá einn gegn Arnari í marki HK eftir fallega sókn Stjörnunnar.

Birnir Breki Burknason var sömuleiðis í dauðafæri hinum megin í byrjun uppbótartímans, fékk boltann frá Birki Val Jónssyni en hitti ekki markið úr markteignum.

En rétt áður en flautað var til hálfleiks náði HK forystunni. George Nunn tók hornspyrnu frá hægri og beint á Viktor Helga Benediktsson á stönginni fjær þar sem hann skoraði með föstum skalla upp undir þverslána, 2:1 fyrir HK í hálfleik.

Í seinni hálfleik var það HK sem átti óskabyrjun. Strax á 48. mínútu komst HK í 3:1. Nunn tók hornspyrnu frá hægri og boltinn fór af varnarmanni í markteignum í netið.

Stjarnan fékk tvöfalt færi á 54. mínútu til að minnka muninn. Arnar Freyr varði glæsilega frá Örvari sem slapp inn í vítateiginn. Helgi Fróði fékk boltann á markteig en skaut yfir markið.

Stjörnumenn sóttu linnulítið eftir þetta en gekk illa að brjóta niður þéttan varnarleik HK. Mark var þó dæmt af á 75. mínútu vegna rangstöðu.

Minnstu munaði hins vegara að Brynjar Snær Pálsson kæmi HK þremur mörkum yfir þegar hann skaut á tómt markið af 35 metra færi og boltinn datt ofan á þaknetið!

Óli Valur Ómarsson slapp óvænt einn gegn Arnari markverði HK á 85. mínútu eftir langa sendingu og náði að renna boltanum framhjá honum en hitti ekki markið.

En Stjarnan komst heldur betur inn í leikinn á 87. mínútu þegar Haukur Örn Brink fékk boltann vinstra megin í vítateignum og skoraði með föstu skoti í hægra hornið, 3:2.

Og á 89. mínútu tók Hilmar Árni hornspyrnu frá hægri og Emil Atlason jafnaði metin með föstum skalla, 3:3.

En á annarri mínútu uppbótartímans fékk Atli Hrafn Andrason boltann á miðju og skaut þaðan yfir Árna í marki Stjörnunnar, 4:3.

Emil fékk færi til að jafna en Arnar varði skalla hans eftir hornspyrnu. Tumi Þorvarsson slapp svo einn upp að marki Stjörnunnar og hefði getað skorað fimmta markið en Árni Snær varði frá honum.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

HK 4:3 Stjarnan opna loka
90. mín. 4 mínútum bætt við
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert