Eins og allir hefðu fengið höfuðhögg

Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga.
Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst við alveg geggjaðir fyrstu þrjátíu mínúturnar og var eins og KR-ingar væru sprungnir á því en svo fékk Halli, Halldór Smári Sigurðsson, höfuðhöggið og einhvern veginn var eins og allir í liðinu hefðu fengið höfuðhögg þegar hléið var gert,“ sagði Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga eftir 1:1 jafntefli gegn KR þegar liðin mættust í efstu deild karla í fótbolta í kvöld í Víkinni.

Þjálfarinn sagði sitt lið hafa síðan misst tökin á leiknum. 

„Svo skorar KR mark, sem var aukainnspýting fyrir KR og í seinni hálfleik var erfitt að brjóta lágvörn KR-inga á bak aftur, erfitt að finna jafnvægi og að taka ekki allar heimsins áhættur til að fá ekki mark í andlitið.  Það er því erfitt að kvarta yfir einhverju, frekar eins og við þurfum að fá skot í bakið og í markið til að komast aftur á sigurbraut.“

Litlir karlar eða stækka um 10 sentímetra

Þjálfari KR, Gregg Ryder, látinn taka pokann sinn og nýr þjálfari, Pálmi Rafn Pálmason, tók við og þreytti frumraun sína í kvöld og Arnar þjálfari Víkinga, sagði það geta verið tvíeggja sverð. 

„Það er eins og svo oft gerist að menn hlaupa meira fyrir nýja þjálfarann, ég er samt ekki að segja að KR-ingar hafi ekki hlaupið fyrir Gregg.  Eins og ég sagði fyrir leikinn þá kemur ákveðinn karakter í liðið en svo skorum við og hefðum getað skorað tvö til þrjú mörk til viðbótar en þá hefði sá karakter breyst í litla karla. 

Þess í stað jafnar KR og þá stækka allir um tíu sentimetra.  Svona er fótbolti alveg mögnuð íþrótt,“ bætti Arnar Bergmann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert