Fjögurra marka jafntefli í Vesturbæ

Kristján Flóki Finnbogason eftir að hafa skallað boltann öðru sinni …
Kristján Flóki Finnbogason eftir að hafa skallað boltann öðru sinni í mark Fylkismanna í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR og Fylkir skildu jöfn, 2:2, í hörkuleik í 12. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Meistaravöllum í Vesturbænum í kvöld.

KR fór með jafnteflinu upp í áttunda sæti þar sem liðið er nú með 13 stig. Fylkir vermir enn botninn en nú með átta stig.

Fyrri hálfleikurinn var ansi hreint tíðindalítill framan af eða allt þar til Kristján Flóki Finnbogason kom heimamönnum  í KR í forystu á 37. mínútu.

Aron Sigurðarson fór þá vel með boltann vinstra megin í vítateignum, náði vinstri fótar fyrirgjöf á Kristján Flóka sem reis hæst við miðjan markteiginn, náði lausum skalla sem var þó hnitmiðaður og hafnaði að lokum í hægra horninu, 1:0.

Eftir markið hresstust KR-ingar talsvert við eftir að hafa verið ansi daufir fyrir það, pressuðu Fylkismenn stíft og héldu boltanum vel.

Fleiri urðu færin hins vegar ekki og staðan í leikhléi 1:0.

Eftir bragðdaufan fyrri hálfleik færðist mun meira fjör í leikana í þeim síðari. KR-ingar byrjuðu hann af krafti og ógnuðu í tvígang eftir hornspyrnur.

Fyrst átti Axel Óskar Andrésson hörkuskalla eftir hornspyrnu Arons Kristófer Lárussonar frá hægri, skallinn stefndi að marki en fór í varnarmann Fylkis.

Skömmu síðar átti Aron Kristófer hörkuskot af vítateigslínunni hægra megin eftir að hornspyrnan  var tekin stutt en Ólafur Kristófer Helgason í marki Fylkis varði skotið sem stefndi niður í nærhornið aftur fyrir.

Þrjú mörk í fjörugum síðari hálfleik

Þrátt fyrir þessa miklu pressu KR í upphafi síðari hálfleiks var það Fylkir sem jafnaði metin á 51. mínútu.

Birkir Eyþórsson átti þá góða fyrirgjöf hægra megin við vítateiginn, fann þar Þórodd Víkingsson fyrir miðjum vítateignum sem skoraði með viðstöðulausu skoti á lofti, 1:1.

Aðeins mínútu síðar náði KR hins vegar forystunni á ný. Aron átti þá góða fyrirgjöf frá vinstri, Kristján Flóki lúrði á fjærstönginni og virtist vera að missa af boltanum en náði skallanum með herkjum, boltinn sveif yfir Ólaf Kristófer og hafnaði í fjærhorninu, 2:1.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir að KR náði forystunni aftur en um miðjan hálfleikinn fékk Orri Sveinn Segatta dauðafæri til þess að jafna metin fyrir Fylki.

Arnór Breki Ásþórsson tók þá aukaspyrnu af hægri kantinum, fann Orra Svein einan á auðum sjó á fjærstönginni en hann hitti ekki boltann sem rúllaði framhjá markinu.

Fimm mínútum síðar, á 72. mínútu, tókst Fylkismönnum hins vegar að jafna metin.

Varamaðurinn Ómar Björn Stefánsson fór þá illa með Birgi Stein Styrmisson á hægri kantinum, renndi boltanum þvert fyrir markið þar sem Nikulás Val Gunnarsson var mættur til að stýra boltanum í netið af örstuttu færi.

Á 81. mínútu fékk varamaðurinn Emil Ásmundsson boltann frá KR-ingi, lék með hann áfram og tók skot rétt fyrir utan vítateig en það fór rétt framhjá markinu.

Fimm mínútum fyrir leikslok komst Finnur Tómas Pálmason nálægt því að tryggja KR sigurinn þegar Axel Óskar skallaði fyrirgjöf þvert fyrir markið en skot Finns Tómasar af stuttu færi fór yfir.

Fleiri færi litu ekki dagsins ljós og sættust liðin því að lokum á jafnan hlut.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

KR 2:2 Fylkir opna loka
90. mín. Leik lokið +6 Leiknum lýkur með fjögurra marka jafntefli eftir frábæran síðari hálfleik.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert