Selfoss sigrar enn - ævintýraleg björgun Ólsara

Gonzalo Zamorano skoraði sigurmark Selfyssinga á Egilsstöðum.
Gonzalo Zamorano skoraði sigurmark Selfyssinga á Egilsstöðum. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Selfyssingar héldu áfram sigurgöngu sinni í 2. deild karla í fótbolta í gær og náðu þriggja stiga forystu á toppnum þegar þeir gerðu góða ferð austur á Egilsstaði.

Þar unnu þeir lið Hattar/Hugins á Vilhjálmsvelli, 1:0, þar sem Gonzalo Zamorano skoraði sigurmarkið í uppbótartíma leiksins. Þá höfðu Selfyssingar verið manni færri nær allan síðari hálfleikinn eftir að Daði Kolviður Einarsson fékk rauða spjaldið.

Selfoss er með 22 stig á toppnum eftir 9 umferðir, Víkingur frá Ólafsvík 19, Völsungur 16, KFA 16, Ægir 15, Haukar 14, Þróttur Vogum 13, Kormákur/Hvöt 11, Höttur/Huginn 9, KFG 7, Reynir Sandgerði 5 og KF 4 stig.

Ólafsvíkingar eru enn taplausir og náðu jafntefli gegn KFG í Garðabæ á ævintýralegan hátt, 4:4, eftir að hafa skorað tvö mörk í uppbótartíma leiksins. Gary Martin jafnaði á fjórðu mínútu uppbótartímans. Áður höfðu Þorsteinn Már Ragnarsson og Björn Axel Guðjónsson skoraði fyrir Ólsara, auk sjálfsmarks. 

KFG komst í 3:0 þegar 20 mínútur voru til leiksloka og síðan í 4:2 en varð að sætta sig við eitt stig. Bjarki Hauksson skoraði tvö marka Garðbæinga, Jón Arnar Barðdal og Pétur Máni Þorkelsson eitt hvor.

Völsungur vann góðan útisigur gegn Kormáki/Hvöt á Blönduósi, 3:1. Juan Guardia, Inigo Albizuri og Steinþór Freyr Þorsteinsson skoruðu fyrir Völsung en Kristinn Bjarni Andrason fyrir Húnvetninga.

Austfirðingarnir í KFA sóttu þrjú stig til Þorlákshafnar þar sem þeir unnu Ægi 1:0. Matheus Bettio skoraði sigurmarkið.

Þróttur úr Vogum vann stórsigur á KF norður í Ólafsfirði, 5:0. Jóhann Þór Arnarsson skoraði tvö mörk, Haukur Darri Pálsson, Eiður Baldvin Baldvinsson og Hreinn Ingi Örnólfsson eitt hver.

Haukar unnu Reyni úr Sandgerði, 3:2, á Ásvöllum. Sindri Þór Guðmundsson kom Reyni tvisvar yfir en Frosti Brynjólfsson skoraði tvívegis fyrir Hauka og Magnús Ingi Halldórsson eitt mark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert