Gæti hlaupið endalaust til að vinna svona leiki

Daníel Hafsteinsson með boltann í kvöld.
Daníel Hafsteinsson með boltann í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Daníel Hafsteinsson átti stórkostlegan leik fyrir KA í kvöld þegar Akureyringar slógu Valsmenn út úr bikarkeppninni í fótbolta. KA fer því í úrslitaleikinn annað árið í röð.

Sjálfur skoraði Daníel eitt mark og átti svo frábæra takta bæði í vörn og sókn, ekki síst þegar leið á leikinn. Kom hann í viðtal eftir leik.

Daníel þetta var stórgóður sigur hjá ykkur. Tveir lykilmenn voru í leikbanni og tveir reynslumiklir framherjar á meiðslalistanum. Það þurfti að gjörbreyta uppstillingunni og menn sem varla höfðu spilað mínútu upp á síðkastið tóku fullar 90 mínútur. Voruð þið alveg vissir um að þetta myndi virka?

„Við vorum búnir að spila þessa taktík eitthvað í sumar en það gekk ekki jafn vel og við ætluðum. Maður var kannski smá skeptískur en við verðum bara að treysta þjálfaranum og við gerðum það svo sannarlega. Ef þú ert ekki að gera það þá ertu ekki að koma með neitt forskot inn í leikinn. Þetta virkaði bara fullkomlega. Kannski skiptir taktíkin ekki öllu máli heldur bara hjartað. Það skilaði þessu í dag.“

Varnarleikurinn skilaði þessu

Það var ýmislegt í kortunum sem gæti valdið ykkur vandræðum í leiknum en baráttan, og eins og þú nefnir hjartað, gerði það að verkum að þið voruð aldrei í stórum vandræðum.

„Við vörðumst vel, nema kannski alveg í byrjun. Við náðum ekki að klukka menn en breyttum þá aðeins. Þeir sem komu inn stóðu sig mjög vel. Það var varnarleikurinn sem skilaði þessu og við vorum ekki að gera miklar gloríur fram á við. Við gerðum þó það sem þurfti.“

Það var svakaleg spenna undir lokin þegar Valsmenn voru komnir mjög framarlega og þið fenguð hvert dauðafærið á að gera út um leikinn.

„Þetta er bara stundum svona og oft er liðunum refsað fyrir að klára ekki svona dauðafæri. Maður hefur séð það margoft í boltanum. Maður fékk því aðeins í magann en þetta reddaðist og það er fyrir öllu.“

Get hlaupið endalaust

Ég get ímyndað mér að það sé gaman að spila svona leiki þar sem varnarleikurinn gengur vel upp og baráttan skilar sigri.

„Ég gæti hlaupið endalaust til að vinna svona leiki. Það var úrslitaleikur í húfi og ef menn geta ekki hlaupið og barist í svona leikjum þá ferðu bara að gera eitthvað annað. Ég veit ekkert hvað við vorum mikið með boltann en við unnum leikinn.“

Nú er KA-liðið búið að vinna fjóra af síðustu fimm leikjum. Hvað breyttist? Eða breyttist kannski ekkert?

„Ég bara veit það ekki. Maður var bara hræddur um að komast ekki aftur í liðið eftir smá meiðsli og leikbann um daginn. Það er bara búin að vera stemning í hópnum þrátt fyrir erfitt gengi í deildinni. Við erum að spila betur núna en ég veit ekki hvað breyttist. Það vantaði bara eitthvað smá, sem ég get ekki útskýrt og það er bara ánægjulegt.“

Ætlum að vinna hann

Það er langt í sjálfan úrslitaleikinn þannig að nú þarf KA bara að spila deildarleiki fram að honum. Það er nú ærið verkefni sem bíður ykkar þar. Þið voruð í úrslitaleiknum í fyrra og það hlýtur að vera mikið hungur í ykkur að koma loks með bikarinn norður.

„Það er mikilvægt að hafa komist aftur í úrslitaleikinn. Þetta var svekkjandi í fyrra. Þetta er skemmtilegt. Við höfum nú reynsluna og svo Evrópuleikina líka. Við þekkjum þetta ágætlega. Við förum fullir sjálfstrausts í úrslitaleikinn og ætlum að vinna hann,“ sagði Daníel kampakátur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert