Selfoss vann grannaslaginn og jók forskotið

Bjarni Jóhannsson er með Selfyssinga á góðum stað á toppi …
Bjarni Jóhannsson er með Selfyssinga á góðum stað á toppi 2. deildar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Selfyssingar náðu í gærkvöld fimm stiga forystu í 2. deild karla í fótbolta þegar þeir unnu nágranna sína, Ægismenn, í Þorlákshöfn, 2:1.

Selfoss er nú með 25 stig, Víkingur Ólafsvík 20 og KFA 19 stig í þremur efstu sætunum.

Þorlákur Breki Baxter og Aron Lucas Vokes komu Selfyssingum snemma í 2:0. Brynjólfur Þór Eyþórsson minnkaði muninn fyrir Ægi í 2:1 fyrir hlé en ekkert var skorað í síðari hálfleiknum.

Ólafsvíkingar eru enn eina taplausa liðið í deildinni en þeir gerðu hins vegar sitt fimmta jafntefli, 1:1, gegn Kormáki/Hvöt á Blönduósi. Luis Romero kom Víkingum yfir rétt fyrir hlé en Artur Jan Balicki jafnaði fyrir Húnvetninga úr vítaspyrnu á 78. mínútu.

Í uppbótartíma leiksins fékk Ómar Castaldo Einarsson, markvörður Víkings, rauða spjaldið, ásamt varamanninum Aroni Gauta Kristjánssyni sem var utan vallar.

Austfirðingar unnu á Húsavík

KFA gerði góða ferð til Húsavíkur og vann þar Völsung, 2:0. Heiðar Snær Ragnarsson kom Austfirðingum yfir strax á 6. mínútu og Julio Cesar gulltryggði sigurinn með marki í uppbótartíma.

Völsungur er með 16 stig eins og Þróttur úr Vogum í fjórða og fimmta sæti, Ægir er með 15, Haukar 14, Kormákur/Hvöt 12, Höttur/Huginn 12, KFG 10, Reynir Sandgerði 5 og KF 4 stig.

Höttur/Huginn vann KF, 1:0, á Egilsstöðum þar sem Rafael Llop skoraði sigurmarkið strax á 17. mínútu.

Mögnuð endurkoma Þróttara

Þróttur úr Vogum vann Hauka á Ásvöllum í Hafnarfirði, 5:3, og það þótt Haukar hefðu komist í 3:0 á fyrstu 19 mínútum leiksins. Daði Snær Ingason skoraði tvö fyrstu mörkin og Guðjón Pétur Lýðsson það þriðja fyrir Hauka.

Jóhann Þór Arnarsson kom Þrótti á blað rétt fyrir hlé, 3:1, en um miðjan síðari hálfleik fóru Þróttarar á flug. Þá skoruðu Guðni Sigþórsson, Hreinn Ingi Örnólfsson og Jóhann Þór þrjú mörk á níu mínútna kafla og Vogamenn voru skyndilega komnir yfir, 4:3. Haukur Darri Pálsson gulltryggði síðan sigur þeirra með marki í uppbótartímanum, 5:3.

Níu mörk og sigurmark í lokin

Jón Arnar Barðdal skoraði tvö mörk fyrir KFG og sigurmarkið …
Jón Arnar Barðdal skoraði tvö mörk fyrir KFG og sigurmarkið gegn Reyni úr Sandgerði. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Annar markaleikur var í Garðabæ þar sem KFG vann botnbaráttuslaginn gegn Reyni úr Sandgerði, 5:4. Jón Arnar Barðdal skoraði sigurmark KFG rétt fyrir leikslok. Þetta var hans annað mark í leiknum, en Bjarki Hauksson, Arnar Ingi Valgeirsson og Ólafur Bjarni Hákonarson skoruðu líka fyrir KFG. Kristófer Páll Viðarsson skoraði tvö marka Reynis og þeir Bergþór Ingi Smárason og Sindri Þór Guðmundsson sitt markið hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert