Mér var settur stóllinn fyrir dyrnar

Nacho Gil, til hægri, í leik með Vestra gegn sínum …
Nacho Gil, til hægri, í leik með Vestra gegn sínum gömlu félögum í Þór á Akureyri. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það kom mörgum á óvart þegar Vestri tilkynnti að spænski knattspyrnumaðurinn Nacho Gil hefði gengið til liðs við 2. deildarlið Selfyssinga.

Nacho, sem er 31 árs gamall miðjumaður, hefur leikið með Vestra frá árinu 2020 þegar hann kom frá Þór á Akureyri en þar hafði hann spilað í tvö ár. Nacho lék 98 leiki fyrir Vestra, 80 þeirra í tveimur efstu deildunum, og skoraði 17 mörk, og hefur verið lykilmaður liðsins síðan hann kom til félagsins. Hann tók drjúgan þátt í að koma því upp í Bestu deildina á síðasta tímabili.

Á þessu ári hefur Nacho verið mikið frá vegna meiðsla og aðeins tekið þátt í fimm leikjum í Bestu deildinni.

Nacho sagði við mbl.is að hann hefði viljað vera áfram á Ísafirði og hjálpa Vestra að halda sæti sínu í deildinni.

Nacho Gil er kominn til Selfyssinga sem eru efstir í …
Nacho Gil er kominn til Selfyssinga sem eru efstir í 2. deild. Ljósmynd/Selfoss

„Því miður er það þannig að ég þarf að kveðja núna, en það er af ástæðum sem tengjast ekki fótboltanum beint. Mig langaði að vera áfram og hjálpa Vestra að halda sæti sínu í efstu deild. Hins vegar var mér settur stóllinn fyrir dyrnar, þjálfarinn og ég vorum ekki sammála um hlutina og ég var því látinn fara,“ sagði Nacho.

„Ég vildi halda áfram, en það var ekki áhugi á að halda mér hérna, þannig að það er með trega sem ég kveð núna. Ég hef alltaf verið trúr sjálfum mér og sagt það sem mér býr í brjósti, hins vegar geta ekki allir tekið því. Ég hef komið heiðarlega fram og eina sem ég hafði í huga var velferð liðsins en það fór ekki vel í alla. Stundum er fótboltinn svona, og ég er ánægður að vera kominn á Selfoss,“ sagði spænski miðjumaðurinn sem samtals á að baki 119 leiki í deildakeppninni hér á landi.

Hann kvaðst vera afar ánægður með tæplega fimm ára dvöl á Ísafirði.

Nacho Gil, hvítklæddur, í leik með Vestra gegn Leikni í …
Nacho Gil, hvítklæddur, í leik með Vestra gegn Leikni í Reykjavík. mbl.is/Íris

„Já, mig langar að þakka stuðningsmönnum og fólkinu sem vinnur í kringum Vestra kærlega fyrir mig. Ég hef átt frábær fjögur og hálft ár hjá félaginu og er afar þakklátur og stoltur af þessum tíma. Þetta er sérstakt félag sem fólk brennur fyrir og er stolt af.

Ég hef átt frábæran tíma á Ísafirði, bæði á vellinum og utan vallar. Fólkið þar verður alltaf í hjarta mínu. Ég verð aðdáandi Vestra út lífið og eins og ég segi er þetta búið að vera frábært. Takk kærlega fyrir mig og áfram Vestri,“ sagði Nacho Gil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert