Enginn handtekinn en framkoman til skammar

Lögreglan var með töluverðan viðbúnað á Hlíðarenda eftir leikinn.
Lögreglan var með töluverðan viðbúnað á Hlíðarenda eftir leikinn. Ljósmynd/Aðsend

„Framkoma þeirra sem mest höfðu sig í frammi var langt frá því að vera til fyrirmyndar og til hreinnar skammar.“

Þetta segir Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, spurður út í atvik sem gerðist eftir Evrópuleik Vals og albanska liðsins Vllaznia að Hlíðarenda í gær.

Tíu lögreglumenn á vettvangi

Tíu lögreglumenn voru kallaðir á vettvang, að sögn Unnars Más, eftir að áhorfendur veittust að leikmönnum og dómara með því að hrækja á þá og láta fúkyrði falla. Einhver átök urðu einnig í stúkunni sem varð til þess að gæslumenn hjá Val réðu ekki við aðstæður. Var lögreglan sömuleiðis kölluð til aðstoðar vegna þess. Ekki kemur fram í skýrslu lögreglunnar að neinn hafi slasast og ekki heldur að skemmdarverk hafi verið unnin. 

Frá leiknum í gærvöldi.
Frá leiknum í gærvöldi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Enginn handtekinn eða kærður

Að sögn Unnars Más voru áhorfendurnir sem lögreglan hafði afskipti af frá Albaníu. Rætt var við einhverja þeirra á staðnum. Enginn var aftur á móti handtekinn eða kærður. „Það verða engar kærur og engir frekari eftirmálar gagnvart þessum hópi en það er spurning hvort öryggismálin verða skoðuð í framhaldinu. Það er eitthvað sem verður að leiða í ljós seinna meir,“ segir varðstjórinn.

Man ekki eftir öðru eins

Ekki kemur fram í skýrslu lögreglu hvort áhorfendurnir hafi verið undir áhrifum áfengis en Unnar Már segir að ef fólk er ölvað í stúkunni getur ýmislegt gerst í hita leiksins. Gæslan og ábyrgðin hjá félaginu verður þá að hans mati að vera með þeim hætti að öryggi gesta sé tryggt. Ábyrgðin getur ekki eingöngu verið hjá lögreglunni.

Spurður kveðst hann ekki muna eftir öðru eins eftir knattspyrnuleik hérlendis í áraraðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert