Myndi velja hana í 99 skipti af 100

Shaina Ashouri í miðju skoti í leiknum í kvöld.
Shaina Ashouri í miðju skoti í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór

Víkingur og Þróttur gerðu 1:1-jafntefli í þriðju umferð efri hlutar Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. John Andrews, þjálfari Víkings, mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.

„Seinni hálfleikurinn, jesús kristur, við vorum frábær. Alvöru Víkingsliðið sýndi sig í síðari hálfleiknum. Við spjölluðum aðeins í hálfleik og ég er sáttur með útkomuna.

Hefðum átt að vinna með fimm eða sex mörkum. Þær komust á vallarhelming okkar tvisvar eða þrisvar. Restin af leiknum var spilaður á þeirra vallarhelming,“ sagði Andrews.

Víkingur var sterkari aðilinn í síðari hálfleik en liðið byrjaði viðureignina ekki vel.

John Henry Andrews á hliðarlínunni í kvöld.
John Henry Andrews á hliðarlínunni í kvöld. Eyþór Árnason

„Ég var mjög ánægður með hvernig við byrjuðum síðari hálfleik því þannig vildum við byrja fyrri hálfleikinn en við gerðum það ekki. Það kemur fyrir að við eigum slakar 45 mínútur. Bestu liðin svara fyrir sig og við gerðum það.

Ég get ekki verið neitt annað en stoltur af leikmönnunum. Þær voru frábærar í síðari hálfleik og þær hefðu getað skorað fjögur eða fimm mörk,“ sagði Andrews.

Jöfnunarmark Þróttar kom eftir mistök frá Sigurborgu Kötlu Sveinbjörnsdóttur, markverði Víkings. Andrews fer fögrum orðum um markmann sinn.

„Mistök koma fyrir, ekkert mál. Ég myndi velja Sigurborgu Kötlu í 99 skipti af 100. Hún er ótrúlegur markvörður. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem þetta gerist og vonandi verða góð þrjú, fjögur ár í að þetta gerist aftur.“

Tveir leikir eru eftir af tímabilinu og mun Víkingur mæta Val í næstu umferð.

„Það er eina liðið á þessu tímabili sem við höfum ekki tekið stig af. Við hefðum ekkert á móti því að gera það núna. Þær eiga eftir að vera á fullri ferð á móti okkur þar sem þær eru að berjast um titilinn við Breiðablik. Þú færð aldrei auðveldan leik gegn Val,“ sagði Andrews að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert