„Sanngjarnt? Ég veit það ekki“

Freyja Karín Þorvarðardóttir með boltann í kvöld.
Freyja Karín Þorvarðardóttir með boltann í kvöld. mbl.is/Eyþór

Þróttur gerði sér heimsókn í Víkina og gerði 1:1-jafntefli gegn Víking í þriðju umferð efri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Þróttar, kom í viðtal til mbl.is eftir leik.

„Ég og John [Andrews] vorum að spauga með það að við hefðum kannski viljað sjá svona opnari leik. Hann aðeins opnaðist í seinni hálfleiknum. Sanngjarnt? Ég veit það ekki.

Mér fannst gott hjá okkur að jafna og koma til baka. Ágætis mark sem Víkingar skora með dugnaði og smá miskilningur í öftustu línu hjá okkur en það er eins og það er.

Komum til baka og svo eigum við fljótlega sennilega stærsta færi leiksins þegar Þórdís [Nanna Ágústsdóttir] fær frábæra sendingu frá Brynju og er á leiðinni í gegn. Auðvitað hefði verið gaman ef hún hefði skorað en ég er alveg viss um það að einhvern tímann á næstu árum á hún eftir að nýta svona færi,“ sagði Ólafur. 

Leikurinn var nokkuð lokaður og var lítið um færi. Allir leikir liðanna í sumar hafa boðið upp á svipaða uppskrift.

„Við lögðum það þannig upp að þora og kasta kannski meiru fram. Ég held að varnir hvors liðs hafi núllað sóknarmennina svolítið út og það eru sterkir varnarmenn í báðum liðum og lokuðu ágætlega á þetta.

Þú getur aldrei stjórnað hvernig leikir verða. Mér fannst kannski í fyrri hálfleiknum stöður sem við fengum, að við náðum ekki að setja almennilega í gegn leikmenn. Víkingarnir fannst mér byrja seinni hálfleikinn betur og hafa yfirhöndina en svo jafnaðist þetta út.

Ég held svona þegar öllu er á botninn hvolft þá eru liðin nokkuð áþekk. Þrír leikir, 0:0, 1:1 og 1:0 fyrir Víking.“

Tveir leikir eru eftir af tímabilinu. Þróttur fær Þór/KA í heimsókn í næstu umferð og endar mótið í Kaplakrika þar sem liðið mætir FH.

„Bara spennandi. Mér finnst eins og þessi leikur og þessir tveir leikir sem við erum búin að spila við Val og Breiðablik sýni að enginn er búinn að kasta inn handklæðinu, hvorki liðin né þjálfararnir.

Mér fannst þetta prýðilegur fótboltaleikur í kvöld og það er bara að halda áfram. Ekkert að vera að horfa á það að nú séum við alveg að verða búin heldur æfa áfram vel og undirbúa sig fyrir leiki og nota þetta sem tækifæri,“ sagði Ólafur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert