Síðasta undanþágan sem íslensk knattspyrna fær

Arnar Gunnlaugsson og lærisveinar hans í Víkingi munu gera sig …
Arnar Gunnlaugsson og lærisveinar hans í Víkingi munu gera sig heimankomna á Kópavogsvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum fyrst og fremst mjög sáttir við að geta spilað á Íslandi,“ sagði Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings úr Reykjavík, eftir að niðurstaða fékkst loksins í mál karlaliðsins um hvar skyldi spila heimaleiki í Sambandsdeild Evrópu.

Leikið verður á Kópavogsvelli snemma dags í október, nóvember og desember.

„Fyrir okkur var það alltaf lykilatriði að halda íslenskri knattspyrnu á heimavelli, bæði fyrir knattspyrnuáhugafólk og ekki síst fyrir stuðningsmenn Víkings,“ sagði Haraldur í samtali við mbl.is.

Víkingsvöllur uppfyllir ekki skilyrði UEFA fyrir heimaleiki í Evrópukeppnum. Það gerir Kópavogsvöllur ekki heldur að fullu, til að mynda hvað flóðlýsingu varðar, en stendur betur að vígi þegar kemur að afstúkun áhorfenda.

Aðskilnaður áhorfenda klipptur og skorinn

„Á öllum íslenskum völlum fyrir utan Laugardalsvöll vantar ljósabúnað sem uppfyllir skilyrði. Þá förum við í Kópavoginn og spilum á þessum dagstíma til þess að skauta framhjá því.

Við fengum undanþágu til þess og það er held ég síðasta undanþágan sem íslensk knattspyrna fær vegna ljósamála. En varðandi Víkingsvöll er hann allt of lítill að öllu leyti og aðgreining áhorfenda erfið.

Við eigum til dæmis von á 500-600 Svíum fyrir leikinn gegn Djurgården. Þá þarf þessi aðskilnaður að vera alveg klipptur og skorinn. Þar kemur litla stúkan í Kópavogi sterk inn,“ útskýrði hann.

Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, og Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar …
Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, og Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Þakklátir Breiðabliki og KSÍ

Haraldur sagði Víkinga þakkláta Breiðabliki og Knattspyrnusambandi Íslands fyrir gott samstarf við að finna lausn á málinu.

„Við höfum unnið þetta mál með Breiðabliki og KSÍ í góðu samstarfi og þökkum öllum þeim aðilum sem komu að þessu fyrir samstarfið. Það er vonandi að við náum að útfæra þetta á sem bestan máta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert