Getur orðið meira íþyngjandi með hverju árinu

Hallgrímur Jónasson þjálfari KA og Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings.
Hallgrímur Jónasson þjálfari KA og Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég finn það, eins asnalega og það hljómar, að með hverju árinu fari þetta mögulega að verða svolítið íþyngjandi,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu, um þá staðreynd að liðið tekur þátt í bikarúrslitum í fimmta skiptið í röð í dag.

Víkingur mætir þar KA annað árið í röð en liðið varð bikarmeistari árin 2023, 2022, 2021 og 2019. Keppni var hætt í bikarkeppninni árið 2020 vegna kórónuveirufaraldursins, en þá voru Víkingar dottnir úr keppni.

„Það er að því leyti að þig langar svo mikið að verða goðsögn með því að vinna fjögur ár í röð, fimm ár í röð eða sex ár í röð. Ef þú klikkar í fimmta eða sjötta skiptið þá ertu allt í einu ekki goðsögn lengur.

Við þurfum að henda svoleiðis hugsunum frá okkur og frekar reyna að kýla á þetta og sjá hvert þessi vegferð leiðir okkur,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is á kynningarfundi fyrir úrslitaleikinn í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal á fimmtudag.

Látum söguna vinna með okkur

Hann vill frekar að Víkingar láti árangurinn sem hefur náðst undanfarin ár vinna með sér.

„Við erum komnir hingað núna í fimmta skiptið og skulum ekki vera með þungar axlir. Við skulum ekki hugsa of langt fram í tímann og hugsum frekar að við skulum virkilega kýla á þetta.

Við erum í þessari stöðu, komnir þetta langt, erum búnir að ná þessum árangri og við skulum láta söguna svolítið vinna með okkur í stað þess að láta hana verða einhverja byrði á herðum okkar,“ sagði Arnar einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert