Hljóp inn á völlinn og datt

Viðar Örn Kjartansson skoraði fyrra mark KA.
Viðar Örn Kjartansson skoraði fyrra mark KA. mbl.is/Ólafur Árdal

Viðar Örn Kjartansson, annar af markaskorurum KA í 2:0 sigrinum á Víkingi í bikarúrslitum, var kátur er hann ræddi við mbl.is eftir leik.

„Mér líður frábærlega. Þetta var mjög gott og sigurinn hefði getað orðið enn stærri. Ég hefði getað gert betur í færum í byrjun en það er eðlilegt í úrslitaleikjum þar sem spennustigið er hátt.

En það er geðveikt að vinna Víking í svona leik. Þeir eru mjög erfiðir. Strákarnir eiga þetta algjörlega skilið,“ sagði framherjinn.

Dagur Ingi Valsson gulltryggði sigur KA-manna með marki í blálok uppbótartímans. „Ég hljóp inn á völlinn og datt. Ég var eiginlega alveg svartur. Ég man varla eftir þessu,“ sagði Viðar kátur.

Mark Viðars kom eftir mikinn darraðardans í markteig Víkinga, en boltinn virtist strjúka Viðari aðeins og fara af honum í netið.

„Ég eigna mér þetta mark. Boltinn snerti mig á línunni. En það skiptir engu máli. Það var gott að ná þessu marki, annars hefði þetta getað þróast öðruvísi.“

KA tapaði fyrir Víkingi í bikarúrslitum fyrir ári og því sérlega sætt að vinna Íslandsmeistarana í dag.

„Það var mikið talað um þennan leik og sérstaklega því þetta var á móti sama andstæðingi í fyrra. Þetta var smá hefnd og það var geðveikt, sérstaklega því KA hefur aldrei unnið þennan bikar áður,“ sagði Viðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert