Hólmar Örn Eyjólfsson fyrirliði Vals var frekar svekktur þegar hann ræddi við mbl.is eftir 2:2 jafntefli liðsins við Stjörnuna á heimavelli í fyrstu umferð efri hluta Bestu deildarinnar í fótbolta í kvöld.
Stjörnumenn voru með 2:0 forskot í hálfleik en Valsmenn mættu mun öflugri til leiks í seinni hálfleik og tókst að jafna.
„Við töluðum um að stíga betur á þá og fara meira í maður á mann. Þeir gera þetta vel þegar framherjinn dettur til baka á miðjuna og þá myndast pláss bak við þig. Við ætluðum ekki að fylgja þeim of mikið til að það yrði ekki til pláss.
Við breyttum því svo í hálfleik og pressuðum þá meira og það gekk mun betur. Það var enginn brjálaður æsingur. Það var farið yfir hlutina og séð hvað við getum gert betur. Breytingarnar voru af hinu góða í dag,“ sagði Hólmar við mbl.is.
Valur er fjórum stigum fyrir ofan Stjörnuna í baráttunni um þriðja sæti, sem gefur þátttökurétt í Sambandsdeildinni á næsta tímabili.
„Við hefðum viljað vinna í dag á okkar heimavelli. Við fengum fullt af færum og föstum leikatriðum. Það er svekkjandi að hafa ekki unnið en við stefnum á þetta þriðja sæti og ætlum okkur í Evrópu.“
Gylfi Þór Sigurðsson tryggði Val eitt stig með glæsilegu skoti utan teigs með vinstri. „Boltinn fór yfir mig. Maður hefur séð þetta áður með vinstri og hægri. Þetta var virkilega fallegt mark.“
Valur fékk fjórtán hornspyrnur í leiknum sem Gylfi tók. Hann fann Hólmar í teignum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Fyrirliðinn var svekktur að hafa ekki nýtt þau tækifæri betur.
„Ég er það. Það voru nokkrar sem ég hefði getað skorað beint úr og aðrar þar sem ég hefði getað skallað að marki og skapað usla. Það er svekkjandi að við nýttum það ekki betur. Ég held hann hafi fundið mig örugglega svona tíu sinnum úr hornspyrnum í kvöld,“ sagði Hólmar.