Þá verðum við í toppmálum

Kristján Flóki Finnbogason í baráttunni í vítaiteg Víkings í kvöld.
Kristján Flóki Finnbogason í baráttunni í vítaiteg Víkings í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Víkingarnir refsa,“ var það fyrsta sem Heimir Guðjónsson þjálfari FH sagði við mbl.is eftir tap fyrir Víkingi, 3:0, í fyrstu umferð efri hluta Bestu deildar karla í fótbolta á Víkingsvelli í kvöld.

„Þeir eru með gott lið. Ég er samt hæstánægður með frammistöðu FH í dag. Menn skildu allt eftir á vellinum. Þegar við komumst í gegnum fyrstu pressuna hjá þeim voru okkur allir vegir færir en vandamálið var að ákvarðanatakan á síðasta þriðjungi mátti vera betri.

Við áttum líka góða möguleika í gegnum skyndisóknir en nýttum það ekki nægilega vel. Eftir að við lentum 2:0 undir hentum við öllu fram og Daði varði vel. Við héldum áfram allan tímann,“ sagði Heimir um leikinn.

FH er sex stigum á eftir Val í baráttunni um þriðja sætið og síðasta Evrópusætið sem í boði er. „Það er fullt eftir að spila um, tólf stig eftir í pottinum. Liðin eiga eftir að spila innbyrðis. Nú hvílum við lúin bein og förum brattir í leikinn á sunnudaginn á móti Breiðabliki.“

FH hefur aðeins unnið einn leik af síðustu sjö í deildinni en að mati Heimis þarf liðið ekki að laga það mikið til að ná í betri úrslit. „Helsta áhyggjuefnið er að það er of auðvelt að skora hjá okkur. Svo þurfum við að taka betri ákvarðanir á síðasta þriðjungi. Þá verðum við í toppmálum.“

Daði Freyr Arnarsson stóð í marki FH annan leikinn í röð. Hann varði nokkrum sinnum vel en fékk á sig þrjú mörk annan leikinn í röð. Sindri Kristinn Ólafsson var allan tímann á bekknum.

„Við ákváðum fyrir leikinn á móti Fram að prófa Daða. Hann hefur staðið sig vel í sumar og staðið sig fínt í þessum tveimur leikjum. Svo sjáum við til,“ sagði Heimir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert