„Bæði ógeðslega létt og ógeðslega erfitt“

Arn­ór Gauti Ragn­ars­son, númer 11, að fagna með stuðningsmönnum eftir …
Arn­ór Gauti Ragn­ars­son, númer 11, að fagna með stuðningsmönnum eftir sigurmarkið, Ólafur Árdal

„Maður er búinn að leggja svo hart af sér, kom upp úr þessum klúbbi, búinn að vera svo lengi að dreyma um þetta og draumurinn er nú orðin að veruleika, maður er í einhverri geðshræringu,“ sagði einlægur Arnór Gauti Ragnarsson, leikmaður Aftureldingar, eftir 1:0- sigur liðsins gegn Keflavík í úrslitaleiknum um sæti í Bestu deild karla í knattspyrnu.

Arnór Gauti Ragnarsson byrjaði á bekknum, kom inn á á 77. mínútu og Afturelding skoraði sigurmarkið mínútu síðar þegar Sigurpáll Melberg Pálsson potaði boltanum í netið eftir frákast frá skoti sem Arnór tók.

Hvernig var að gíra sig upp í þennan leik?

„Það var bæði ógeðslega létt og ógeðslega erfitt. Það er högg að byrja á bekknum en Maggi (Magnús Már Einarsson, þjálfari liðsins) lagði þetta svo vel upp, held að hann var hjá völvunni um helgina hann sagði mér að þetta myndi gerast. Að ég myndi byrja á bekknum, leikurinn væri lokaður og svo myndi ég koma inn á á 70. og leggja upp eða skora mark. Bara skrifað í skýin.“

Afturelding tapaði úrslitaleiknum gegn Vestra í fyrra, 1:0, en höfðu betur í ár.

„Ég veit ekki hvað myndi gerast ef við myndum ekki komast í gegnum tvo úrslitaleiki en við vorum reynslunni ríkari en í fyrra. Þetta var vel skipulagður leikur og við fórum bara “all guns blazing” í þetta sem skilaði sér.“

Það heyrðist vel í stuðningsmönnum Aftureldingar í kvöld.
Það heyrðist vel í stuðningsmönnum Aftureldingar í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Stuðningsmenn Aftureldingar sungu um Arnór Gauta nánast frá fyrstu mínútu en hann er augljóslega vinsæll í Mosfellsbæ. Textinn í laginu um hann er um vodka, Jager og skallann á honum svo þetta er stemnings lag.

„Ætli maður verði ekki í þessari blöndu í kvöld, og jú að vísu er ég sköllóttur. Mosfellingar, eins og Jökull sagði, þetta er sérstakt lið. Þeir kunna að mæta á úrslitaleiki og gerðu það í dag, ég á ekki til orð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert