Dettur ekki fyrir okkur þessa dagana

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA.
Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ÍA þurfti að þola 3:0-tap gegn Stjörnunni í efri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld. Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.

„Svekkjandi tap, svekkjandi niðurstaða. Of stórt tap miðað við að mér fannst lítið í leiknum í fyrri hálfleik. Stjarnan stjórnaði leiknum en mér fannst við vera með góð tök á því sem þeir voru að gera.

Það sem skilur liðina að er hornspyrna sem að þeir klára. Við fáum virkilega gott skallafæri sjálfir sem við nýtum ekki. Það er munurinn á liðunum í fyrri hálfleik.

Síðan áfram sama í síðari hálfleik. Við nýtum ekki færin okkar og missum svolítið talningu á miðjunni. Erum ringlaðir sem gerir það að verkum að þeir komast  í alltof auðvelda skyndisókn og fá gott færi sem við á endanum klárum fyrir þá og þá er staðan orðin mjög erfið.

Við finnum okkur í þeirri stöðu að þurfa að berjast og rembast inn í leikinn og gerðum það að mörgu leyti ágætlega. Fáum fín færi í stöðunni 2:0 en inn vildi boltinn ekki og þar af leiðandi komust við ekki inn í hann.

Síðan erum við klaufar, töpum boltanum illa og gefum þeim þriðja markið alltof auðvelt og niðurstaðan of stórt tap að mínu mati,“ sagði Jón Þór í viðtali við mbl.is eftir leik.  

ÍA fékk fín færi til að jafna metin og minnka muninn í leiknum en fór illa að ráði sínu fyrir framan markið.

„Við erum að koma okkur í virkilega álitlegar stöður. Þegar við vinnum boltann erum við í álitlegum stöðum til að sækja hratt og við gerðum það oft ágætlega. En  við náðum ekki að klára það og ef þú gerir það ekki þá færðu ekkert úr leikjum, það er klárt.“

Þrír leikir eru eftir af mótinu og er ÍA fimm stigum frá Val í þriðja sæti sem gefur keppnisrétt í Evrópu á næsta ári.

„Það eru þrír leikir eftir og við þurfum að koma okkur á fætur. Við erum búnir að tapa tveimur erfiðum leikjum og höfum ekki skorað í þeim. Það er fyrst og fremst það sem við þurfum að einbeita okkur að. Koma sterkt til baka og koma okkur á fætur.

Við erum að koma okkur í mörg virkilega álitleg upphlaup og skemmtilegar stöður sem við náum ekki að reka endahnútinn á. Það dettur ekki fyrir okkur þessa dagana og við þurfum bara að halda áfram. Halda áfram að leggja þessa miklu vinnu í það sem við erum að gera og þá uppskerum við eftir því á endanum,“ sagði Jón Þór að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert