Uppskárum sanngjarnan sigur

Emil Atlason í baráttunni við Erik Sandberg.
Emil Atlason í baráttunni við Erik Sandberg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan hafði betur gegn ÍA, 3:0, í annarri umferð efri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Emil Atlason, leikmaður Stjörnunnar, mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.

„Mér líður bara mjög vel. Við vorum mjög flottir í dag, náðum að hreyfa þá og spila mjög góðan leik,“ sagði Emil í viðtali við mbl.is eftir leik.

Hvernig fannst þér leikurinn spilast, fannst þér þið vera sterkari aðilinn í dag?

„Já ég myndi segja það. Þeir fengu eitt færi í seinni hálfleik sem Árni [Snær Ólafsson] varði mjög vel. Annars vorum við bara að hreyfa þá mjög vel og uppskárum sanngjarnan sigur.“

Þú skorar fyrsta mark leiksins með skalla eftir hornspyrnu sem gefur ykkur forystu í hálfleik. Var mikilvægt að fara með 1:0 forystu inn í hálfleikinn?

„Já, alltaf gott að fá forystuna. Þetta gekk vel, við vorum að hreyfa þá mjög vel og þetta var bara frábær leikur hjá okkur. Við vorum flottir í dag.“

Sigurinn í dag þýðir að Stjarnan er einu stigi á eftir Val í þriðja sætinu sem gefur keppnisrétt í Evrópu á næst ári.

„Við förum bara í næsta leik og skoðum það. Eigum Víking næst og við þurfum að skoða þá vel og læra. Mikið sem við getum lært af þessum leik . Við förum inn í Víkingsleikinn með fulla einbeitingu á að fá eitthvað úr þeim leik,“ sagði Emil að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert