Ekki sáttur við stöðu Hákonar

Fjalar Þorgeirsson markvarðaþjálfari og Hákon Rafn Valdimarsson ræða málin.
Fjalar Þorgeirsson markvarðaþjálfari og Hákon Rafn Valdimarsson ræða málin. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst ekki ánægður með stöðu markvarðarins Hákonar Rafns Valdimarssonar hjá félagsliði sínu Brentford.

Hákon Rafn hefur eignað sér markvarðarstöðuna hjá Íslandi en er varamarkvörður hjá Brentford, þar sem hollenski landsliðsmarkvörðurinn Mark Flekken er á undan honum í goggunarröðinni.

„Nei, ég er ekki ánægður með hana,“ sagði Hareide á fjarfundi á Teams í dag er hann var spurður hvort hann væri sáttur við stöðu markvarðarins hjá enska úrvalsdeildarfélaginu.

Hann spilaði gegn Leyton Orient og brást vel við í þeim aðstæðum sem komu upp í þeim leik. Hann snerti boltann oft þar sem Brentford spilar frá aftasta manni.

Það er eina æfingin sem hann hefur fengið. Til langs tíma litið mun þetta ekki hjálpa Hákoni neitt. Elías spilar reglulega fyrir Midtjylland og Patrik spilar reglulega fyrir Kortrijk,“ hélt Norðmaðurinn áfram.

Í raun ekki nóg

Hareide bætti því að það gengi ekki til lengdar að Hákon Rafn væri varaskeifa hjá félagsliði sínu.

„Við þurfum að bíða og sjá til. Hákon er skynsamur maður og ég held að hann skilji það vel að þetta er í raun ekki nóg þegar þú ert kominn í landsliðsverkefni, sem eru öðruvísi en venjulegir leikir.

Ég hef upplifað þetta áður þegar ég þjálfaði Noreg. Þetta er eins fyrir útileikmenn sem sitja á bekknum þegar þú spilar ekki og æfir bara. Í landsliðinu þurfum við á leikmönnum sem eru að spila að halda.

En hingað til hefur Hákon staðið sig ágætlega. Við getum ekki álasað Hákoni neitt. Við þurfum að fylgjast vel með þessu fyrir undankeppnina fyrir HM sem hefst á næsta ári. Þá verður það enn mikilvægara að velja rétt.“

Hefur ekki tekið ákvörðun

Spurður hvort hann væri búinn að taka ákvörðun um hvort Hákon Rafn haldi sæti sínu í markinu sagði Hareide:

„Nei, ég veit það ekki. Við verðum að ræða við Hákon þegar hann kemur. Sjá hvernig hann er og hvernig honum líður.

Við gerum það alltaf og Fjalar er með góða stjórn á markvarðateyminu. Þeir vinna vel saman. Ef við gerum breytingu höfum við engar áhyggjur því við erum með þrjá mjög góða markverði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert