Hugsum stöðugt um Kristian

Åge Harei­de og Kristian Nökkvi Hlynsson.
Åge Harei­de og Kristian Nökkvi Hlynsson. Ljósmynd/Samsett

Knattspyrnumaðurinn Kristian Nökkvi Hlynsson, miðjumaður Ajax, er í U21-árs landsliðshópi Íslands en ekki A-landsliðshópnum að þessu sinni.

Hann á að baki tvo A-landsleiki og tíu leiki fyrir U21-árs landsliðið, en sá síðasti fyrir síðarnefnda liðið kom fyrir rúmum tveimur árum.

„Kristian átti í smá meiðslavandræðum fyrir síðasta landsleikjaglugga. Hann hefur ekki verið að spila mikið. Hann spilaði með varaliðinu þar sem hann var tekinn af velli eftir 55-60 mínútur.

Svo kom hann inn á sem varamaður í síðasta Evrópuleik sem Ajax spilaði, en hann hefur ekki mikið spilað. Hann þarf að koma sér aftur í sitt besta líkamlega form. Kannski ættum við að spila honum í U21-árs liðinu svo hann fái leiki og mínútur í fæturna.

Það er mjög mikilvægt. Svo þurfum við að bíða og sjá hvort hann ráði við það. Ég veit það ekki ennþá. Ég talaði við Kristian í dag, hann var á leið í Evrópuleik með Ajax.

Vonandi verður í lagi með hann og hann fær mínútur í þeim leik. Ef hann kemst í gegnum leiki með U21-árs liðinu væri það mjög mikilvægt fyrir okkur,“ sagði Åge Harei­de, þjálf­ari ís­lenska karla­landsliðsins í knatt­spyrnu, á fjarfundi á Teams í dag.

Verðum að sýna varkárni með yngri leikmenn

Kristian Nökkvi hefur lítið spilað fyrir Ajax á yfirstandandi tímabili. Veldur það Hareide áhyggjum?

„Nei, í rauninni ekki. Ég ræddi við íþróttastjórann hjá Ajax og ég tel að þeir líti á Kristian sem mjög spennandi leikmann fyrir framtíðina og það geri ég sömuleiðis.

Það er mjög mikilvægt að skilja það að á miðjunni erum við með Ísak sem er að spila reglulega fyrir Fortuna Düsseldorf, hann er á svipuðum aldri og Kristian, aðeins eldri, og við erum með tvo reynda leikmenn í Jóhanni Berg og Arnóri Traustasyni.

Stefán Þórðarson hefur þá unnið sig upp í að vera mjög mikilvægur leikmaður á miðjunni hjá okkur. Þessir leikmenn búa yfir mismunandi eiginleikum. Kristian hefur mikla getu og leikni en þeir eru allir leiknir á sinn hátt.

Við verðum að velja leikmenn sem geta spilað saman og séð til þess að íslenska liðið sé alltaf eins sterkt og mögulegt er þegar við veljum það. Við hugsum stöðugt um hann en verðum að vera varkárir með þessa yngri leikmenn.

Við viljum alls ekki skemma þá. Við viljum eiga í góðu sambandi við félögin varðandi það að við notum leikmenn þeirra skynsamlega. Að við ofnotum þá ekki og meiðum þá. Það myndi valda vandræðum fyrir Ísland, Ajax og Kristian,“ sagði Norðmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert