Ættum að vera tveggja klukkustunda virði

Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks.
Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum full sjálfstrausts og klár í slaginn,“ sagði Nik Chamberlain, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, fyrir hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn gegn Val á Hlíðarenda á morgun.

„Það er heil vika frá síðasta leik og mér líður svolítið eins og það sé síðasti undirbúningsdagurinn fyrir leikinn nú þegar. Núna undir lok tímabilsins höfum við oftast verið að spila á fjögurra til fimm daga fresti.

Við bíðum í eftirvæntingu eftir leiknum og erum full sjálfstrausts,“ sagði Nik er mbl.is ræddi við hann á kynningarfundi fyrir leikinn að Hlíðarenda í gær.

Breiðablik er á toppnum með eins stigs forskot á Val og nægir því jafntefli til þess að tryggja sér titilinn. Enski þjálfarinn segir Blika ekki mæta til leiks til þess að ná í jafntefli.

„Við munum leggja allt í sölurnar til þess að vinna. Það er það sem við höfum gert allt tímabilið og höfum verið að gera í undanförnum sjö leikjum.

Sérstaklega varðandi það hversu mörg mörk við höfum verið að skora. Það mun ekkert breytast. Við ætlum að mæta hingað og leitast eftir því að krækja í þrjú stig,“ sagði hann.

Engar afsakanir fyrir laugardaginn

Nik bindur vonir við að nýtt áhorfendamet á leik í efstu deild kvenna verði slegið á morgun. Sem stendur er metið 1.212 áhorfendur, sem mættu á leik Þórs/KA og Selfoss árið 2012.

„Ég vona að við sláum áhorfendametið. Þessi leikur er frábær auglýsing fyrir kvennaboltann. Í leikjunum sem við höfum spilað við Val á tímabilinu hefur ekki beint verið frábært veður, að undanskildum bikarúrslitaleiknum, sem hefur verið svolítið óheppilegt.

Það eru engar afsakanir fyrir laugardaginn, við ættum að vera tveggja klukkustunda virði, sérstaklega þar sem svo mikið er í húfi í leiknum. Þetta eru tvö lið á höfuðborgarsvæðinu þannig að það er ekki eins og við þurfum að ferðast fjóra eða fimm tíma til þess að sjá leikinn.

Mér skilst að það séu engir aðrir leikir sem skarast á við þennan, að minnsta kosti ekki hjá félögunum tveimur. Því ættu allir að styðja við bakið á liðunum og við ættum algjörlega að stefna að því að slá metið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert