Ég æfi svona skot á æfingum

Andri Rúnar Bjarnason, Haraldur Einar Ásgrímsson og Jeppe Pedersen í …
Andri Rúnar Bjarnason, Haraldur Einar Ásgrímsson og Jeppe Pedersen í leiknum í Úlfarsárdal í dag. Ólafur Árdal

„Við vorum mjög þéttir til baka og refsum á réttum tímapunktum og það var frábært að ná svona sigri á erfiðum útivelli,“ sagði Andri Rúnar Bjarnason, sem skoraði þrennu í 4:2 sigri Vestra á Fram í 3. umferð neðri hluta keppni Íslandsmóts karla í fótbolta í Úlfarsárdalnum í dag.

Fram réði ekkert við sóknarpar Vestra, Andra Rúnar og Benedikt Warén, sem sáu um öll mörk Vestra.  „Við  tengjum vel saman, það rosa gott að spila með honum eins og við sýndum í dag, að við séum á sömu blaðsíðunni.

Markmiðið var að koma hingað til að vinna og það lítur vel út í deildinni en það getur allt gerst, þetta er jú fótbolti og maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér en við sofum samt rótt í nótt og svo er næsti leikur við KA,“ bætti Andri Rúnar við.

Eitt af mörkum Andra Rúnars kom eftir skot við endalínuna um 10 metra frá markinu þegar boltinn tók sveig og í hornið. „Ég æfi svona skot oft á æfingum og hef oft hitt markið svo þetta gerist reglulega á æfingum. Ég sá boltann snúast strax og hélt að hann væri að fara í stöngina en svo snerist hann í fjær hornið og það var rosalega sætt,“ sagði kappinn kampakátur.

Veit ekki hvað þarf til að vakna

Guðmundur Magnússon fyrirliði Fram var eins og við er að búast ekki sáttur eftir leikinn. „Ég átti ekki von á þessu, hélt að síðasti leikur okkar hefði verið nægilegur til að vekja okkur en það var það greinilega ekki. Við vissum að Vestri væri með spræka menn á köntunum og svo auðvitað Andra Rúnar frammi.  Við vorum alveg mataðir á því fyrir leik að þessir væru þeirra hættulegustu menn en einhvern veginn virðast þeir fá að vera einir.“

Fram er nokkuð öruggt með halda sæti sínu í deildinni en fyrirliðinn sagði það ekki nóg.  „Við erum jafnvel öruggir með deildina en það er alveg sama, það eru tveir leikir eftir og ég veit ekki hvað menn eru að pæla.  Við höfum nú fengið á okkur ellefu mörk í síðustu tveimur leikjum okkar og mér finnst einhvern veginn ekki skipta máli.  Ef menn vöknuðu ekki við sjö-eitt tapið gegn KR í síðasta leik þá veit ég ekki hvað þarf til,“ sagði Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka