„Ég hefði gefið annan handlegginn fyrir 6. sætið“

Víkingskonur að fagna í dag.
Víkingskonur að fagna í dag. mbl.is/Egill Bjarni Friðjónsson

Nýliðar Víkinga í Bestu-deild kvenna tryggðu sér 3. sætið í dag með því að leggja Þór/KA á Akureyri í lokaumferðinni. Víkingur vann leikinn 1:0 og fór þar með upp fyrir norðanliðið, sem hefur verið í 3. sætinu nánast frá byrjun. Mátti sjá bros á öllum Víkingum í leikslok. Tæpara gat þetta varla orðið þar sem Sandra María Jessen fékk tvö gullin færi til að jafna leikinn og halda Þór/KA í 3. sætinu.

Víkingsþjálfarinn John Andrews var að sjálfsögðu kampakátur í leikslok og var hann óspar á að hrósa öllum sem honum datt í hug.

Þetta var sterkur sigur hjá þínu liði í dag. Þór/KA gerði lítið en fékk þó tvö góð færi seint í leiknum.

„Úff já. Sandra María er besti markaskorarinn í deildinni og við sluppum fyrir horn þegar hún skaut í stöngina í vítinu. Öll lið sem koma hingað þurfa að hafa eitthvað í pokahorninu til að verjast henni og samherjum hennar. Hún er frábær leikmaður og gerir mikið fyrir deildina. Ég þurfti að brýna fyrir öllum mínum leikmönnum að verjast vel. Það vantaði ekkert upp á það og ég var hæstánægður með frammistöðu liðsins. Ég er mjög stoltur af þeim.“

Bjóstu við að ná þessum árangri þegar mótið byrjaði í vor?

„Nei. Ég hefði gefið annan handlegginn fyrir 6. sætið. Við stefndum á það og að fá að spila í efri hlutanum. Mínir leikmenn bara hætta aldrei. Þeir leggja sig alltaf fram, bæði í leikjum og á æfingum. Þetta eru alvöru vinnuhestar og maður kemst mjög langt á því að vinna fyrir hlutunum.“

Og hvað á þá að gera á næsta tímabili?

„Ef við höldum sama hóp og fáum leikmenn úr yngri liðunum þá sé ég bara spennandi tíma framundan. Við vinnum að því að gera Víking að stóru félagi í kvennadeildinni og höldum áfram sömu vinnu. Sú vinna mun halda áfram um miðjan nóvember en nú er kannski tími til að sletta aðeins úr klaufunum og fagna árangri ársins.“

Þú minntist á erfiðisvinnu áðan. Er það einkenni á þínum liðum að þurfa að erfiða til að ná settum markmiðum?

„Það er stór hluti af því. Ef við tökum tímabilið í ár þá hefur lítið fallið með okkur. Kannski bara vítaklúðrið hjá Söndru Maríu áðan. Við höfum verið í mótvindi og allt hefur fallið gegn okkur. Við höfum ekkert vælt eða kvartað, bara haldið áfram að taka á því. Þannig bara eru mínir leikmenn. Við höfum selt leikmenn, það hafa verið veikindi og meiðsli. Leikmenn hafa farið. Það bara bítur ekkert á okkur. Við höldum alltaf áfram og berum höfuðið hátt. Þetta er bara það sem félagið stendur fyrir. Það er bæði ánægjulegt og heiður að vinna hjá Víkingum þar sem bæði körlum og konum er gert hátt undir höfði“ sagði John að lokum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka