Fyrsti skjöldurinn en ekki sá síðasti

Agla María, númer 7, fagnar með liðsfélögum sínum í dag.
Agla María, númer 7, fagnar með liðsfélögum sínum í dag. Ólafur Árdal

Agla María Albertsdóttir var í afar góðu skapi er hún ræddi við mbl.is eftir að hún og liðsfélagar hennar í Breiðabliki urðu Íslandsmeistarar í fótbolta eftir markalaust jafntefli við Val á Hlíðarenda í hreinum úrslitaleik í lokaumferð Bestu deildarinnar.

„Þessi hefur verið ansi langþráður. Síðustu þrjú tímabil hefur þetta farið til Valsara, svo það var mjög sætt að klára þetta. Ég var smá stressuð í lokin, ég viðurkenni það, en mér fannst stelpurnar leysa þetta mjög vel og ég er ótrúlega fegin,“ sagði hún.

Agla María var tekin af velli í lokin og tók því góðan sprett af bekknum þegar Erlendur Eiríksson dómari flautaði af.

„Ég tók bara sprettinn inn af bekknum og var eiginlega ekki að hugsa neitt. Þetta var stórkostlegt. Þetta er stórt augnablik fyrir okkur, að vinna núna. Þetta er það sem koma skal hjá okkur,“ sagði Agla María.

Rúmlega 1.600 manns voru í stúkunni og gerðu nýtt áhorfendamet í efstu deild kvenna. Það var því mikil Blikahátíð á Hlíðarenda í dag.

„Við höfum tryggt okkur titilinn hérna áður, árið 2020. Við höfum oft unnið hérna og við þekkjum þetta. Það var ótrúlega gott að vinna hér og sérstaklega fyrir framan svona marga og marga Blika sérstaklega. Þeir voru í meirihluta í stúkunni og eiga mikið hrós skilið.“

Breiðablik vann síðast árið 2020 þegar tímabilið var blásið af þegar skammt var eftir vegna covid. Nú fær Agla María betra tækifæri til að fagna vel.

„Síðast var þetta á Zoom, árið 2020. Þá var þetta hvorki skjöldur né bikar. Þetta er fyrsti skjöldurinn en ekki sá seinasti,“ sagði Agla María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka