Þá væri okkur kannski hefnd í huga

Nik Chamberlain þjálfari og Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks.
Nik Chamberlain þjálfari og Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks. mbl.is/Eyþór Árnason

Valur og Breiðablik mætast í hreinum úrslitaleik í lokaumferð efri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í dag.

Fyrir leikinn er Breiðablik í efsta sæti með 60 stig og Valur í öðru sæti með einu stigi minna.

Liðin hafa þegar mæst þrisvar á tímabilinu, tvisvar í Bestu deildinni og einu sinni í bikarúrslitum.

Breiðablik vann heimaleik sinn í deildinni og Valur sömuleiðis sinn heimaleik. Valur hafði þá betur gegn Breiðabliki í bikarúrslitaleik í ágúst.

Í samtali við mbl.is á kynningarfundi að Hlíðarenda á fimmtudag var Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, spurður að því hvort Blikum væri hefnd í huga fyrir leik dagsins vegna tapsins í bikarúrslitum.

„Nei, ég myndi segja að bikarleikir séu venjulega settir upp svona. Einn leikur, annað liðið kemst áfram og hitt fellur úr leik. Ef við myndum mæta þeim aftur í bikarnum á næsta tímabili þá væri okkur kannski meiri hefnd í huga.

Þær hafa unnið okkur tvisvar á tímabilinu, einu sinni í bikarnum og einu sinni í deildinni. Því hugsum við meira um tímabilið í heild fremur en bara einn leik. Það að þetta sé Valur bætir engu við fyrir okkur, þannig hefur tímabilið bara þróast,“ sagði Nik.

Frábært að setja þrýsting á hvort annað

Hann kvaðst ekki svekktur yfir því að Breiðablik væri ekki með meira forskot í deildinni en raunin er fyrir leikinn í dag.

„Nei, alls ekki. Ég kíkti um daginn á hve mörg stig liðin enduðu með á síðasta tímabili og flest þeirra, fyrir utan kannski áttunda og níunda sæti sem voru með færri stig, voru með svipað mörg stig og á síðasta tímabili samanborið við síðasta ár.

Það eru einungis við og Valur sem höfum komist á annað stig í ár þar sem við erum að halda hvoru öðru við efnið. Ég tel þetta hafa verið gott fyrir bæði lið þar sem við höfum haldið pressu og væntingum háum í garð hvors annars. Því myndi ég ekki segja að þetta sé pirrandi.

Við vorum í öðru sæti þar til þær töpuðu stigum hér gegn Þrótti. Mér finnst það frábært að við höfum verið að setja þrýsting á hvort annað allt tímabilið.“

Nokkuð greið leið undanfarin ár

Valur hefur orðið Íslandsmeistari undanfarin þrjú ár og það nokkuð sannfærandi.

„Valur hefur átt nokkuð greiða leið að Íslandsmeistaratitlinum á undanförnum árum. Breiðablik var í harðri baráttu um titilinn fyrir tveimur árum en gaf eftir í síðustu leikjunum.

Það er langt síðan tvö lið hafa farið í lokaumferðina þar sem allt er undir. En það er líka sjaldgæft að bæði liðin sem eru í þeirri stöðu spili við hvort annað í lokaumferðinni.

Ég býst við því að það fari að gerast oftar í framhaldinu nú þegar við erum komin með tvískiptingu á deildinni. Kannski ekki á hverju ári en oftar en ekki. Það sama á við um karladeildina. Það er bara gott fyrir deildina,“ sagði Nik að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka