Á meðan sá möguleiki er tölfræðilegur

Skagamenn á leið í skyndisókn gegn FH í dag þegar …
Skagamenn á leið í skyndisókn gegn FH í dag þegar Árni Marinó Einarsson kastar boltanum fram. mbl.is/Guðmundur Bjarki

„Við ætluðum að verjast og sækja svo hratt, höfum verið slakir í síðustu leikjum en áttum helling inni og náðum að stilla okkur vel í dag til að spila góðan leik og ná góðum sigri, sem við áttum alveg skilið í dag,“ sagði Viktor Jónsson fyrirliði sem skoraði eitt af mörkum í 4:1 sigri á FH á Akranesi í dag þegar leikið var í 3.  umferð í efri hluta keppni Íslandsmótsins í fótbolta.

„Við ætluðum að spila þéttan varnarleik og nýta skyndisóknir okkar, sem við erum svo góðir í en vissum líka að FH-liðið er sterkast þegar við erum að sækja og þeir ná að snúa vörn í sókn svo við þyrftum að vera fljótir til baka, sækja samt á sem flestum mönnum og það gekk í dag, við sköpuðum okkur fullt af færum og stöðum, sem við hefðum getað gert meira úr en fjögur-eitt er frábært.“

Viðtalið var tekið að loknum leiknum á Skipaskaga og þá var ÍA komið með 37 stig í 5. sætinu með Stjörnuna í 4. sætinu með 38 stig en spilar gegn Víkingum í dag.  Svo er Valur í 3. sætinu með 39 stig og þar sem enn eru 6 stig í pottinum fyrir Skagamenn er Evrópudraumurinn á lífi og Viktor fyrirliði tók undir það. „Við eigum alltaf möguleika á Evrópusæti, á meðan sá möguleiki er tölfræðilegur og við höldum bara áfram, sjáum hvernig leikirnir í kvöld spilast.  Við gerum bara okkar besta og sjáum hverju það skilar okkur,“ bætti Viktor við.

Þurfti að ná andanum

Johannes Björn Vall stóð sig með prýði í þéttri vörn Skagamanna auk þess að skora mark eftir mikinn sprett upp völlinn en það tók sinn toll og hann fór útaf eftir 75 mínútur. „Við sækjum oftast mikið og höfum átt nokkra leiki þar sem við fáum færi en náum ekki að skora svo það var gott að ná fjórum hérna í dag í góðum leik. Ég var orðinn svolítið þreyttur, meiddist aðeins gegn Stjörnunni í síðasta leik og var alla vikuna að jafna mig, sem er alltaf erfitt  að fara í erfiðan leik og ég þurfti að ná andanum,“ sagði Svíinn eftir leikinn.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert