„Ég var búin að skrifa handrit í hausnum á mér og það gekk svona líka vel,“ sagði knattspyrnukonan og Íslandsmeistarinn Ásta Eir Árnadóttir í Dagmálum.
Ásta Eir sem er 31 árs gömul, leiddi uppeldisfélag sitt Breiðablik til sigurs á Íslandsmótinu í ár í þriðja sinn á ferlinum en hún tilkynnti nokkuð óvænt eftir leikinn að skórnir væru komnir á hilluna.
Ásta tók ákvörðun um það á miðju tímabili að tímabilið 2024 yrði hennar síðasta en hún beið til að mynda með það að segja liðsfélögum sínum frá því þangað til viku fyrir síðasta leik.
„Við vorum í góðri stöðu og ég gerði mér grein fyrir því að þetta gæti endað í úrslitaleik gegn Val í síðustu umferðinni,“ sagði Ásta Eir en úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn réðust einmitt í lokaumferðinni á Hlíðarenda.
„Ég vildi ekki gefa þetta út, með þennan leik framundan. Ég er búin að fá mikla athygli eftir að ég tilkynnti þetta og ég vildi ekki að það myndi gerast í aðdraganda úrslitaleiksins.
Ég vildi ekki að þetta myndi snúast um mig. Ég var búin að ákveða það að ég ætlaði ekki að segja neitt fyrr en eftir tímabilið og það gekk eftir,“ sagði Ásta Eir meðal annars.
Viðtalið við Ástu Eir í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.