Seld á „upphæð sem hefur ekki sést áður í kvennaboltanum“

Fanney Inga Birkisdóttir ver skot í leik með Val.
Fanney Inga Birkisdóttir ver skot í leik með Val. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fanney Inga Birkisdóttir, markvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, hefur samið við sænska félagið Häcken. Häcken, sem leikur í sænsku úrvalsdeildinni, kaupir hana af uppeldisfélaginu Val.

Fanney Inga er aðeins 19 ára gömul en hefur staðið í marki Vals undanfarin tvö tímabil þar sem hún hefur orðið Íslands- og bikarmeistari.

Þá hefur hún verið aðalmarkvörður landsliðsins undanfarið ár og spilað sjö A-landsleiki.

Í tilkynningu frá knattspyrnudeild Vals segir Björn Steinar Jónsson, varaformaður Vals, að kaupverðið sé trúnaðarmál en að ljóst væri að félagið sé að fá upphæð sem ekki hafi sést í íslenska kvennaboltanum til þessa.

„Og Fanney Inga stendur alveg undir því enda teljum við að hún eigi eftir að ná langt í framtíðinni. Við óskum henni alls hins besta og getum ekki beðið eftir því að fylgjast með henni á stóra sviðinu,“ sagði Björn Steinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert