„Ef guð er til þá hittir þú hann í smá stund“

Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson. mbl.is/Ólafur Árdal

„Þetta var gamaldagsleikur við aðstæður sem maður spilaði sjálfur oft í, í gula búningnum,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings úr Reykjavík, eftir 4:3-sigur liðsins gegn ÍA í 26. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Akranesi í dag.

Leikurinn var frábær skemmtun en það var Danijel Dejan Djuric sem skoraði sigurmarkið með skalla þegar fimm mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma síðari hálfleiks.

Sálin í fótboltanum

„Þetta er sálin í fótboltanum. Þrátt fyrir allar þessar hallir og kósíheitin í fótboltanum í dag þá mega menn ekki gleyma því að mæta með uppbrettar ermar í rokið og rigninguna. Í hvert einasta skipti sem við hefjum okkar vegferð á vorin þá spyr ég sjálfan mig hvort hungrið sé ennþá til staðar. Það er mannfólkinu svo eðlislægt að fagna sigrum og fara svo í smá frí, sem er mjög dýrt í íþróttum. Svona leikir sýna manni svart á hvítu hversu mikið hungur er í mínu liði. Ég fagna þeim degi þegar ég valdi íþróttir sem mitt lifibrauð.

Mamma og pabbi hvöttu mig áfram og studdu við bakið á mér. Takk mamma og pabbi. Íþróttir er svo heiðarlegar. Bæði lið voru stríðsmenn í dag og þú uppskerð eins og þú sáir. Til þess að verða Íslandsmeistari þarftu allan pakkann. Þú þarft að hafa hæfileika og þú þarft líka að hafa heppnina með þér í liði. Aðstæður eins og í dag minnka bilið á milli liða. Ef við myndum spila við þá á hverjum degi í heila viku, við toppaðstæður, þá myndum við vinna þá oftar en svona aðstæður gera það að verkum að bilið minnkar á milli liðanna og leikirnir verða skemmtilegri. Við erum ekki með VAR-myndbandsdómgæsluna og þá koma dómaramistökin inn í þetta líka en við höfum líka lent í ýmsu því tengdu í sumar,“ sagði Arnar.

Var rólegur í hálfleik

Víkinga fengu á sig tvö mörk undir lok fyrri hálfleiks en Arnar segist þó hafa verið mjög rólegur í hálfleik.

„Ég var mjög slakur í hálfleik. Mér finnst við góðir í fyrri hálfleik og við vorum að spila vel. Við fáum á okkur klaufaleg mörk og sem betur fer skorum við snemma í síðari hálfleik. Þetta snýst um trú og þú þarft að hafa trú á því sem þú ert að gera. Ef þú gerir það þá munu góðir hlutir gerast.

Ég verð að hrósa Skaganum fyrir að hanga inn í þessum leik. Það er með ólíkindum að þeir hafi skorað þrjú mörk og þeir áttu mögulega að fá vítaspyrnu og þetta og hitt. Mér fannst þetta mjög vel gert hjá þeim miðað við það hversu góðir við vorum í dag.“

Fáir sem fá að upplifa þetta

Hvernig leið Arnari þegar hann sá boltann í netinu á 95. mínútu?

„Maður heldur alltaf að maður hafi séð allt í þessum bolta en svo koma svona augnablik. Eins og ég sagði áðan þá er ég þakklátur fyrir að hafa valið þetta sem mitt ævistarf. Það eru fáir sem fá að upplifa þetta en þjálfari og leikmaður sem lendir svona, ef guð er til þá hittir þú hann í smá stund, í þessum augnablikum. Þetta er ástæðan fyrir því að maður er í þessu,“ sagði Arnar Gunnlaugsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert