Gylfi Þór að leggja skóna á hilluna?

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Ljósmynd/Alex Nicodim

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson gæti lagt skóna á hilluna þegar tímabilinu lýkur um næstu helgi.

Þetta tilkynnti hann í samtali við fótbolta.net eftir leik FH og Vals í 26. umferð Bestu deildarinnar á Kaplakrikavelli í dag.

Gylfi Þór, sem er 35 ára gamall, gekk til liðs við Val fyrir yfirstandandi tímabil og skrifaði undir tveggja ára samning á Hlíðarenda eftir tveggja ára fjarveru frá fótboltanum.

Gæti verið minn síðasti leikur

„Ég veit ekki hvort ég haldi áfram í fótbolta,“ sagði Gylfi í samtali við fótbolta.net.

„Leikurinn um næstu helgi gæti mögulega verið minn síðasti leikur. Ég veit ekki alveg hvað framtíðin ber í skauti sér,“ bætti Gylfi við í samtali við fótbolta.net.

Gylfi á að baki farsælan feril sem atvinnumaður á Englandi og í Þýskalandi og þá á hann að baki 83 A-landsleiki og 27 mörk. Hann er markahæsti leikmaður í sögu karlalandsliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert