Hetja Víkinga: „Þá þurfti ég að gubba“

Nikolaj Hansen í baráttunni á Akranesi í dag.
Nikolaj Hansen í baráttunni á Akranesi í dag. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

„Þetta var einhver ótrúlegasti leikur sem maður hefur spilað,“ sagði Danijel Dejan Djuric, hetja Víkings úr Reykjavík, eftir 4:3-sigur liðsins gegn ÍA í 26. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Akranesi í dag.

Leikurinn var frábær skemmtun en það var Danijel sjálfur sem skoraði sigurmarkið með skalla þegar fimm mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma síðari hálfleiks en hann byrjaði á varamannabekk Víkinga í dag.

„Ég skildi ákvörðun þjálfarans. Aðstæðurnar voru þannig í dag að fótboltinn sem ég vil spila hentaði kannski ekki best í þessum aðstæðum. Arnar veit upp á hár hvað hann er að gera og hann setti mig inn á í seinni hálfleik. Ég fékk mjög einföld skilaboð, þegar ég var að koma inn á, og það var að koma inn á og skora,“ sagði Danijel.

Fór í sæluvímu

Danijel er ekki beint þekktur fyrir það að skora með skalla og kom aðstoðarþjálfara Víkinga, Sölva Geir Ottesen, á óvart með markinu.

„Það er gott að vera með þetta í vopnabúrinu. Sölvi greip í mig áðan og sagði að hann vissi ekki að ég ætti þetta til. Ég sá boltann fara í stöngina og inn og ég fékk vægt sjokk. Ég held að ég hafi í alvörunni farið í einhverskonar vímu. Svo auðvitað lögðust allir ofan á mig og þá þurfti ég að gubba,“ bætti kampakátur Danijel við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert