Lygileg endurkoma Víkinga á Akranesi

Skagamaðurinn Johannes Björn Vall og Víkingurinn Aron Elís Þrándarson í …
Skagamaðurinn Johannes Björn Vall og Víkingurinn Aron Elís Þrándarson í baráttunni í dag. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

Danijel Dejan Djuric reyndist hetja Víkinga þegar liðið vann ótrúlegan endurkomusigur gegn ÍA í 26. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Akranesi í dag.

Leiknum lauk með 4:3-sigri Víkinga en Danijel skoraði sigurmarkið þegar fimm mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma.

Víkingar eru áfram i efsta sæti deildarinnar með 59 stig, þremur stigum meira en Breiðablik sem er með 56 stig og mætir Stjörnunni á eftir, en ósigurinn þýðir að Evrópudraumur Skagamanna er úti. Skagamenn eru með 37 stig í fimmta sætinu, fjórum stigum minna en Valur sem er í þriðja sætinu.

Með þessum úrslitum eru Víkingar öruggir með að duga jafntefli gegn Breiðabliki í úrslitaleik liðanna annan sunnudag. Breiðablik þarf að ná í stig gegn Stjörnunni á eftir til að eiga raunhæfa möguleika á meistaratitlinum en tapi Kópavogsliðið myndi það þurfa stórsigur gegn Víkingi í umræddum leik á Víkingsvellinum.

Tvö mörk undir lok hálfleiksins

Helgi Guðjónsson fékk fyrsta færi leiksins strax á 1. mínútu þegar Erlingur Agnarsson sendi fyrir markið frá hægri en Helgi hitti ekki boltann sem endaði í höndunum á Árna Marinó Einarssyni í marki Skagamanna.

Valdimar Þór Ingimundarson fékk besta færi Víkinga í fyrri hálfleik á 24. mínútu eftir frábæra fyrirgjöf Erlings en skalli Valdimars fór í innanverða stöngina, þaðan í hina stöngina, og Skagamenn komu boltanum svo aftur fyrir endamörk.

Á 43. mínútu dró til tíðinda en Johannes Vall átti þá aukaspyrnu við D-bogann. Boltinn fór í gegnum varnarvegg Víkinga en þó beint á markið. Pálmi Rafn Arinbjörnsson réð hins vegar ekki við skotið og Skagamenn komnir yfir, 1:0.

Þremur mínútum síðar tvöfölduðu Skagamenn forystu sína þegar Vall átti laglega fyrirgjöf frá vinstri. Hinrik Harðarson stökk hæst í teignum og átti frábæran skalla í nærhornið sem Pálmi Rafn réð ekki við. Skagamenn fóru því með 2:0-forystu inn í hálfleikinn.

Ótrúlegar lokamínútur

Síðari hálfleikurinn fór fjörlega af stað því strax á 47. mínútu tókst Víkingum að minnka muninn í 2:1. Aron Elís Þrándarson lagði boltann þá snyrtilega út á Erling Agnarsson sem fékk boltann utarlega á vítateigslínunni. Hann færði boltann frá vinstri yfir á hægri og átti frábært skot með vinstri fæti sem söng í fjærhorninu.

Víkingar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin og leikurinn fór svo gott sem fram á vallarhelmingi Skagamanna í síðari hálfleik.

Þung pressa Víkinga bar loks árangur á 75. mínútu þegar boltinn barst til Arons Elís rétt utan teigs. Hann sendi boltann í gegnum vörn ÍA, beint í fæturna á Erlingi Agnarssyni sem vippaði boltanum yfir Árna Marinó sem kom út á móti honum. Nikolaj Hansen var svo mættur á marklínuna til þess að ýta boltanum í markið og staðan orðin 2:2.

Það virtist allt stefna í jafntefli þegar Ingi Þór Sigurðsson vann boltann af Tarik Ibrahimagic úti hægra meginn. Ingi keyrði upp að endamörkum, lagði boltann fyrir markið á Viktor Jónsson sem stýrði boltanum í netið úr miðjum teignum og Skagamenn aftur komnir yfir.

Aðeins mínútu síðar fékk Erlingur boltann úti vinstra megin. Hann lagði boltann fyrir sig og þrumaði honum með vinstri fæti, upp í samskeytin vinstra megin, og staðan aftur orðin jöfn, 3:3.

Mark var dæmt af Skagamönnum á fjórðu mínútu uppbótartímans, Breki Þór Hermannsson skoraði en boltinn fór líklega í hönd hans.

Það var svo Danijel Dejan Djuric sem skoraði sigurmark leiksins með skalla þegar fimm mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma. Óskar Örn Hauksson átti þá frábæra fyrirgjöf frá hægri, beint á kollinn á Danijel sem skallaði boltann í stöngina og inn og lokatölur því 4:3 á Akranesi.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

KA 2:1 Vestri opna
90. mín. Gunnar Jónas Hauksson (Vestri) fær rautt spjald Hallgrímur Mar reynir að setja boltann innfyrir vörnina í hlaupið hjá Ásgeiri en Gunnar setur hendina fyrir sendinguna og Pétur rekur hann útaf.
FH 1:1 Valur opna
90. mín. Kristinn Freyr Sigurðsson (Valur) fær gult spjald +6. Æsti sig útaf brotinu.
Man. United 2:1 Brentford opna
90. mín. Leik lokið Ansi kærkomið fyrir Erik ten Hag og lærisveina hans.
Bournemouth 0:0 Arsenal opna
1. mín. Leikur hafinn Arsenal, sem er í bláum varavaratreyjum, byrjar með boltann.
Breiðablik 0:0 Stjarnan opna
Engir atburðir skráðir enn

Leiklýsing

ÍA 3:4 Víkingur R. opna loka
90. mín. Erlingur Agnarsson (Víkingur R.) á skot yfir Boltinn dettur fyrir Erling, rétt utan teigs, en skotið yfir markið!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert