Jón Þór brjálaður – dregur heilindi dómarans í efa

Skagamenn fagna marki Hinriks Harðarsonar í dag.
Skagamenn fagna marki Hinriks Harðarsonar í dag. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

„Mér hefur sjaldan eða aldrei liðið jafn illa, takk fyrir að spyrja,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, eftir 4:3-tap liðsins gegn Íslandsmeisturum Víkings úr Reykjavík í 26. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Akranesi í dag.

Leikurinn var frábær skemmtun en það var Danijel Dejan Djuric sem skoraði sigurmarkið með skalla þegar fimm mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma síðari hálfleiks.

Leikurinn frábær skemmtun

„Þessi leikur var frábær skemmtun og við áttum geggjaðan lokakafla í fyrri hálfleik. Við byrjuðum leikinn vel, af miklum krafti, en svo tekur dómarinn algjörlega völdin frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu. Við eigum að fá vítaspyrnu snemma leiks en í staðinn fær Hinrik gult spjald fyrir leikaraskap. Það er galið og svo skoruðum við fjórða markið í uppbótartíma, sem átti að vera sigurmark leiksins, en við erum rændir því marki.

Dómarinn dæmir einhverja hendi en það er alveg sama hversu oft þú horfir á þetta atvik, þetta var aldrei hendi. Það er ljóst að dómarinn var með eitthvað markmið í þessum leik, eða þá að hann átti alveg rosalega slakan dag. Hann var alveg hræðilegur og það bitnaði á okkur. Í sigurmarkinu þeirra er brotið á Johannesi Vall. Ég veit ekki hvort dómarinn hafi verið með æðra markmið í þessu í dag en það er klárt mál að hann stal þessum sigri frá okkur,“ sagði Jón Þór.

Verður að spyrja dómarann

Mikið hefur verið rætt og ritað um mögulegan úrslitaleik Víkings og Breiðablik í lokaumferð deildarinnar en telur Jón Þór að dómarinn hafi verið meðvitaður um þann leik á meðan hann dæmdi á Akranesi í dag?

„Þú verður náttúrulega að spyrja dómarann að því en það eina sem ég veit er að þetta var ótrúlega léleg dómgæsla í dag, merkilega léleg. Við lendum í því líka, í fyrri leiknum í sumar á móti Víkingi hérna á heimavelli, að dómgæslan sé léleg þá líka. Þar var það dómari sem rænir okkur þeim leik. Hann rekur Marko [Vadic] af velli eftir rangan vítaspyrnudóm. Það vill svo til að sá dómari er mættur á  hliðarlínuna í dag sem fjórði dómari.

Er verið að ögra okkur eða gera grín að okkur? Hver er ástæðan á bakvið þetta? Þetta er ótrúleg ákvörðun. Það er ekkert við Erlend að sakast við dómgæsluna í dag en það segir sig samt sjálft, eins og til dæmis þegar kemur upp þetta atvik þegar við viljum vítaspyrnu snemma leiks, þá horfum við á Erlend. Það er fyrsti maðurinn sem maður sér.

Hvernig á maður að hafa stjórn á tilfinningum sínum þegar þetta er svona? Hann hefði getað verið fjórði dómari á öllum öðrum leikjum umferðarinnar en bara ekki þessum. Hann hefði mátt vera fjórði dómari hjá okkur í allt sumar mín vegna en bara ekki í þessum leik. Þetta er ótrúleg ákvörðun hjá KSÍ. Þú mátt skila því til þeirra að þeir eigi von á símtali frá mér um helgina!“

Vorkennir leikmönnum sínum

Þrátt fyrir tapið sýndu Skagamenn hetjulega frammistöðu gegn Íslandsmeisturunum og voru óheppnir að fá ekkert út úr leiknum.

„Ég vorkenni mínu liði fyrst og fremst. Strákarnir lögðu ótrúlega mikla vinnu í leikinn og spiluðu hann frábærlega. Það er ekki nokkur leið fyrir mig sem þjálfara að standa fyrir framan þá og útskýra fyrir þeim hvað átti sér stað hérna. Það er ekki hægt.

Við ætluðum okkur í úrslitaleik gegn Val um Evrópusæti í næstu umferð en núna er það búið. Það er óútskýranlegt svekkelsi í gangi því þessu var rænt af okkur og strákunum. Við skorum sigurmark sem er tekið af okkur og það er ekki hægt að útskýra hvernig manni líður og hversu sár maður er yfir þessu öllu saman. Þetta var ótrúlegur leikur, ótrúlegur dagur og ótrúlegur leikur.“

Klúbburinn á ákveðinni vegferð

Skagamenn hafa átt mjög gott tímabil en liðið var nýliði í deildinni í ár.

„Við höfum átt tvö frábær tímabil í röð og klúbburinn er á ákveðinni vegferð. Menn mega ekki missa sjónar á því og láta þetta slá sig út af laginu. Leikurinn er búinn og það er engin VAR-myndbandsdómgæsla á Íslandi.

Við getum ekki áfrýjað þessum úrslitum, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Það voru ekki bara Víkingar sem voru andstæðingar okkar í dag en það er ekkert annað í stöðunni að halda áfram og mæta tilbúnir í næsta leik.

Hvernig ætlar Jón Þór að ná sér niður eftir tapið?

„Ég ætla að fara heim og mála, fjölskyldan er úti á Tenerife, þannig að ég reyni að nýta tímann í það held ég bara,“ bætti þjálfarinn við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert