Svekkjandi að fá á sig mark í lokin og klikka svo á víti

Gylfa Þór Sigurðssyni tókst ekki að tryggja sigur Vals á …
Gylfa Þór Sigurðssyni tókst ekki að tryggja sigur Vals á FH þegar vítaspyrna hans var varin. mbl.is/Eyþór Árnason

„Mér fannst svekkjandi að fá á sig þetta mark í lokin og klikka svo á víti en heilt yfir var jafntefli jafnvel sanngjörn úrslit því þetta var ekkert sérstakur leikur, hjá hvorugu liðinu held ég,“ sagði Valsarinn Gylfi Þór Sigurðsson eftir 1:1 jafntefli gegn FH á Kaplakrika í dag þegar fram fór næstsíðasta umferð efstu deildar karla í fótbolta.

Gylfi Þór fékk tækifæri til að tryggja sigur Vals þegar rúmar 11 mínútur voru liðnar af uppbótartímanum því Sindri Kristinn Ólafsson varði víti frá honum í stöðunni 1:1.

„Ég veit ekki hvernig staðan verður eftir leiki dagsins og hvernig þetta verður fyrir síðustu umferðina en auðvitað er markmið hjá félaginu að ná í Evrópusæti.  Við þurfum bara að vinna síðasta leikinn, sjá bara um það sjálfir og gera það sem þarf að gera og einbeita okkur að því.  Það er alltaf betra að hafa aðstæður í okkar höndum og stjórna sjálfir hvað verður en þetta hefur verið svekkjandi tímabil,“ bætti Gylfi Þór við.

Reyndum að verja forystuna

Bjarni Mark Duffield stóð í ströngu í vörn Vals og lét líka til sín taka í sóknarleiknum og skoraði mark Vals en sá á eftir stigunum því þrjú slík hefðu aukið möguleika Hlíðarendaliðsins mikið í baráttu við Stjörnuna um laust sæti í Evrópukeppninni.  „Mér fannst þetta bara eins og sumarið hjá okkur í hnotskurn og það er bara okkur sjálfum um að kenna en leiðinlegt að þetta falli ekki alveg með okkur,“ sagði Bjarni eftir leikinn.

Ef eitthvað þá voru Valsmenn betri en slógu aðeins af í lokin – það verður síðan ekki tekið af FH-ingum að þeir skerptu á sínum leik og uppskáru stig. „Mér fannst í raun eðlilegt að lið í okkar stöðu, sem er að reyna tryggja Evrópusæti og er með forystu á grasvelli sem er ekkert sérstakur, að þú reynir sjálfkrafa að reyna verja forystuna.  Mér fannst við samt sækja nóg í seinni hálfleik til að ná tveggja marka forystu en það gerðist ekki og við reyndum þá að loka leiknum en það gekk ekki.  Það er ekki hægt að ná Víkingum og Blikum svo það er ekkert annað í boði en að við gefum allt okkar í að ná Evrópusætinu,“ bætti Bjarni við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert