Þarf eitthvað að endurskoða þessar reglur

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, var að vonum sáttur er hann mætti í viðtal til mbl.is eftir 2:1-sigur sinna manna gegn Stjörnunni í Bestu deild karla í fótbolta í Kópavoginum í kvöld.

„Þetta var ekki fallegasti knattspyrnuleikur sem hefur verið spilaður. Auðvitað ofboðslega mikið undir fyrir bæði lið. Þetta var karaktersigur og ég er aðallega ánægður með það að þegar lítið var eftir af leiknum, staðan 1:1 og augljóslega máttum ekki fá á okkur mark. Í stað þess að leggjast niður og verja markið okkar förum við upp og skorum og vinnum leikinn. Það var alvöru svar, mikill karakter og gerði þetta sætara fyrir vikið,“ sagði Halldór í viðtali við mbl.is eftir leik.

Þið áttuð ekki ykkar besta leik, var stress sem spilaði inn í þar?

„Ég held ekki. Þetta er mjög reynslumikið lið og menn hafa auðvitað spilað stóra leiki. Mér fannst fyrri hálfleikur litast af því að þetta var einhvers konar taktísk skák, reyna telja rétt í pressu og annað.

Það sem pirraði mig aðallega og gaf þeim sín bestu upphlaup voru að við töldum þá rangt. Það er mjög erfitt í fótboltaleik að laga það eða leiðrétta, sérstaklega á meðan leik stendur. Mér fannst við gera það vel í hálfleik og koma töluvert betur í seinni hálfleikinn. Mér leið vel með þetta allan tímann.“

Höskuldur Gunnlaugsson, Andri Rafn Yeoman og Viktor Karl Einarsson voru allir á hættusvæði fyrir leikinn í dag með þrjú gul spjöld. Spjald í leiknum hefði sett þá í leikbann í úrslitaleiknum gegn Víking í næstu viku.

„Einhverjir af þeim voru að fá þessi spjöld í apríl þegar þú fékkst spjald fyrir að anda. Allt aðrar reglur sem gildu þá, Höskuldur hefur ekki fengið spjöld í marga mánuði.

Mitt mat er allavega það að þegar þú lengir mótið svona mikið að þú þarft eitthvað að endurskoða þessa reglur. Ekki bara fjölda heldur líka þegar þú færð fjórða gula spjaldið, af hverju tekur ekki bannið gildi strax eins og rautt spjald. Það er alls konar sem þarf að skoða og menn hljóta ætla að gera það,“

Sigurinn í dag þýðir að þið mætið Víkingi í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Hvernig leggst leikurinn í liðið og hvernig undirbúið þið fyrir svona stórleik?

„Það leggst frábærlega í okkur og er ótrúlega spennandi vika framundan fyrir okkur teymið, liðið, félagið og stuðningsmenninga. Það er alveg klárt mál.

Við þurfum að nota vikuna vel og muna að njóta, það er mjög mikilvægt. Svo undirbúum við bara leikinn taktískt eins og við erum vanir en síðan þurfum við líka að vinna í sálrænu hliðinni.

Ef það var stress í dag þá væntanlega verður smá stress í maganum á mönnum fyrir leikinn á sunnudaginn. Við verðum klárir þegar leikurinn byrjar,“ sagði Halldór að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert