„Ég get ekki lokað þessu tímabili án þess að minnast á Særúnu [Jónsdóttur] sjúkraþjálfarann minn,“ sagði knattspyrnukonan og Íslandsmeistarinn Ásta Eir Árnadóttir í Dagmálum.
Ásta Eir sem er 31 árs gömul, leiddi uppeldisfélag sitt Breiðablik til sigurs á Íslandsmótinu í ár í þriðja sinn á ferlinum en hún tilkynnti nokkuð óvænt eftir leikinn að skórnir væru komnir á hilluna.
Ásta Eir hefur glímt við sinn skerf af meiðslum á undanförnum árum og missti til að mynda mikið úr vegna meiðsla á síðustu leiktíð.
„Það þekkir mig enginn betur en hún,“ sagði Ásta Eir.
„Hún hætti með okkur fyrir nokkrum árum og er bara með karlaliðið í dag en ég þorði aldrei að sleppa henni. Hún hefur sinnt mér einu sinni í viku í ég veit ekki hvað mörg ár.
Hún hjálpaði mér mikið á erfiðum tímum, til dæmis í sumar, og ég á henni ofboðslega mikið að þakka,“ sagði Ásta Eir meðal annars.
Viðtalið við Ástu Eir í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.